Veðrið ekki sem verst í Havana

Fólk í biðröð fyrir utan matvælaverslun.
Fólk í biðröð fyrir utan matvælaverslun. Reuters

Veður er þokkalegt í Havana þótt sterkar vindhviður komi öðru hverju. Íbúar borgarinnar hömstruðu matvæli í gær og birgðu stóra glugga. Gas og rafmagn var tekið af í nótt.

„Hérna er enn allt frekar rólegt,” segir Elín Lóa Baldursdóttir sem stundar nám við Havanaháskóla ásamt annarri íslenskri stúdínu, Sigríði Tryggvadóttur.

Hún sagði að auga stormsins myndi sem betur fer ekki fara yfir borgina og að búist væri við því að mesta vindinn myndi lægja um tvö leytið í dag. Það væri þó ekki mikill vindur úti og fólk skytist á milli húsa.

„Það er samt þó nokkur rigning og því er spáð að rigningin haldi eitthvað áfram,” sagði Elín Lóa.

Hún sagði íbúa borgarinnar taka þessu frekar rólega og helsta merkið um að eitthvað væri í uppsiglingu hefði verið hamstrið.

„Fólk var að hamstra mat í gær og við biðum til dæmis í fjörutíu mínútur eftir brauði. Bakarar höfðu ekki við. Fólk var kaupa sér mat sem ekki þyrfti að elda enda var búist við því að þurfa að vera án rafmagns og gass í einhvern tíma.”

Rafmagn og gas fór síðan af á svipuðum tíma og vindinn byrjaði að herða sem var um klukkan tvö síðustu nótt.

Elín Lóa sagðist ekki hafa verið stressuð yfir Ike. Húsið sem þær stöllur byggju í væri sterkbyggt steinhús með þykkjum veggjum.

„Það er allt í finu lagi með okkur svo er stormurinn líka dottinn niður í fyrsta stigs fellibyl,” sagði Elín Lóa.

Elín Lóa og Sigríður læra spænsku við Háskóla Íslands og taka eina önn við háskólann í Havana. Elínu sagðist líka vel við Kúbu, fólkið væri vinalegt og þessi vika sem þær væru búnar að eiga á Kúbu hefði verið skemmtileg.

Elín Lóa skrifar um reynslu sína á Kúbu á vefsíðu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert