Borgarbúar fái meira val og betri þjónustu

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Óskar Bergsson formaður borgarráðs gerðu …
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Óskar Bergsson formaður borgarráðs gerðu grein fyrir stefnu meirihluta borgarstjórnar á fundi í Valhöll í dag. Friðrik Tryggvason

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir að fjármál séu aðalverkefni borgarstjórnar þessa dagana.  Hún og Óskar Bergsson formaður borgarráðs höfðu framsögu á hádegisverðarfundi í Valhöll í dag. Óskar stýrir hópi sem undirbýr aðgerðaáætlun og er stefnt að því að kynna hana 1. október næstkomandi.

Hanna Birna sagði um fjármál borgarinnar að nú þurfi að stíga á bremsuna, nokkuð laust, til þess að ekki þurfi að kippa í handbremsuna síðar. Hanna Birna sagði teikn um þrengingar í rekstri Reykjavíkurborgar. Borgarstjórn ætli að sýna ábyrga fjármálastjórn án þess að grípa til niðurskurðar á grunnþjónustu eða uppsagna starfsfólks. 

Þá er verið að taka þjónustuna við borgarbúa til endurskoðunar. Hanna Birna sagði að stundum virðist sem þjónusta borgarinnar sé ekki veitt af einu heildstæðu fyrirtæki heldur mörgum aðskildum deildum. Stefnt er að því að innleiða öflugra þjónustuviðmót og greiðari samskipti borgaranna við borgina.

Eins er stefnt að því að auka val borgarbúa á öllum aldri hvað varðar þjónustu.  Hanna Birna upplýsti t.d. að menntaráð hafi samþykkt í morgun að skóli í anda Hjallastefnunnar komi til Reykjavíkur.

Borgarstjórinn lét afar vel af samstarfi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og lofaði kyrrð í Ráðhúsi Reykjavíkur - a.m.k. næstu tvö ár.

Óskar Bergsson formaður borgarráðs styrir starfi aðgerðahópsins sem undirbýr aðgerðaáætlun. Sviðsstjórar borgarinnar hafa verið með í ráðum og eins taka fulltrúar minnihlutans þátt í starfi hópsins. Óskar taldi að starfið í hópnum myndi leiða til aukins samstarfs hinna ýmsu sviða borgarinnar og að það myndi skila sparnaði. Stefnt er að því að kynna aðgerðirnar 1. október næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert