Betri horfur en talið var

„Horfur varðandi fjárhag ríkissjóðs eru jafnvel heldur betri við áttum von á, og útlitið með hagvöxt á árinu í heild er líka betra heldur en spáð hafði verið. Og það eru jákvæð tíðindi,“ segir Geir H. Haarde forsætisráðherra varðandi nýjar hagvaxtatölur Hagstofu Íslands.

Nýjar tölur frá Hagstofunnar yfir hagvöxtinn í fyrra og á fyrri helmingi þessa árs eru jákvæðar, og hafa tölurnar farið fram úr björtustu vonum ríkisstjórnarinnar. Landsframleiðsla er talin hafa aukins um 5% að raungildi á öðrum ársfjórðungi ársins 2008, og á sama tíma má ætla að þjóðarútgjöld hafi dregist saman um um 8%. Þá er vert að geta þess að Hagvöxtur fyrstu sex mánuði ársins er talinn vera 4,1%.

Forsætisráðherra segir hagþróunina stefna í rétta átt og að ekki sé kominn fram neinn samdráttur að heitið geti í framleiðslu, heldur þvert á móti.

Útflutningurinn sækir í sig veðrið

„Útflutningurinn er að stórvaxa, og hann er mikilvægur liður í þessu. Aftur á móti eru þjóðarútgjöldin, þar með talin einkaneyslan, að minnka mikið. Og samtals eru þetta hvorttveggja góð tíðindi, því að þetta þýðir það að þenslan er að minnka, en útflutningurinn að sækja mjög í sig veðrið - m.a. vegna aukinnar álframleiðslu. 

Geir bendir á að vandinn sem Íslendingar standi frammi fyrir núna sé fyrst og fremst verðbólgan. „Hún skýrist af stórum hluta af sveiflum í genginu, og lækkun gengis krónunnar, sem aftur á móti skýrist af stórum hluta af því að það er ekki gjaldeyrir að koma inn í landið með eðlilegum hætti út af lánsfjárkreppunni í útlöndum.“Geir bendir hins vegar á að flestir spái því að verðbólgan muni ganga nokkuð hratt niður á næstu mánuðum. Þar með muni vextirnir lækka í kjölfarið. Gangi þetta eftir sé staðan betri en margir hafi gert ráð fyrir.

Vonandi minna um uppsagnir og atvinnuleysi

Aðspurður segir Geir að þar sem framleiðslustarfsemin í landinu sé öflugri en talið hafi verið þá hafi það vonandi þá þýðingu að það verði minna um uppsagnir og atvinnuleysi en menn hafi gert ráð fyrir. „Stóra málið núna er að koma böndum á verðbólguna vegna þess að þar eru landsmenn allir á sama báti með lánin sín og skuldbindingar, og verðlagið almennt,“ segir Geir H. Haarde.

Vefur Hagstofu Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert