Stærsti hluti aflans síld og makríll

mbl.is/ÞÖK

Heildarafli íslenskra skipa í ágúst metinn á föstu verði, var 8,6% meiri en í ágúst 2007. Það sem af er árinu hefur aflinn dregist saman um 6,1% miðað við sama tímabil 2007, sé hann metinn á föstu verði. 

Aflinn nam alls 142.002 tonnum í ágúst 2008 samanborið við 89.944 tonn í ágúst 2007, að því er segir á vef Hagstofu Íslands.

Botnfiskafli dróst saman um 2.300 tonn frá ágúst 2007 og nam rúmum 36.900 tonnum. Ýsuafli dróst saman um tæp 3.500 tonn og þorskafli um tæp 1.700 tonn. Ufsaafli jókst hinsvegar um rúm 2.000 tonn og karfaafli um rúm 400 tonn miðað við ágúst 2007.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 104.300 tonnum og var að stærstum hluta síld og makríll. Aukning í uppsjávarafla nemur tæplega 50.600 tonnum frá því í ágúst 2007. Síldaraflinn nam 63.100 tonnum og jókst um rúm 31.800 tonn frá ágúst 2007.

Afli makríls nam 40.300 tonnum í ágúst og jókst um rúm 26.100 tonn frá fyrra ári. Rúmlega 800 tonn voru veidd af kolmunna samanborið við rúm 5.000 tonn í ágúst 2007. Flatfiskaflinn var tæp 1.800 tonn í ágúst og dróst saman um tæp 200 tonn frá fyrra ári. Veruleg aukning var í skel- og krabbadýraafla, sem nam 1.150 tonnum og jókst um tæp 700 tonn miðað við ágúst 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert