Staðgöngumæðrun „má ekki verða atvinnuvegur“

„Landlæknisembætið er hlynnt því að þessi möguleiki verði skoðaður, en þessi umræða á alveg eftir að fara fram hérlendis,“ segir Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir og vísar þar til umræðunnar um staðgöngumæður, en núverandi íslensk lög leyfa ekki að kona gangi með og ali barn, sem getið er af öðru fólki með tæknifrjóvgun, og láti barnið af hendi strax eftir fæðingu.

Eftir því sem blaðamaður kemst næst kom til greina að kveða á um lagalegt hlutverk staðgöngumæðra í lögum um tæknifrjóvgun sem samþykkt voru á Alþingi sl. vor, en talið var að það gæti tafið meðferð frumvarpsins og því var ákveðið að hafa það ekki með í lögunum og skoða það frekar eitt og sér síðar.

Að sögn aðstoðarlandlæknis vekur hugmyndin um staðgöngumæðrun margar spurningar, ekki síst siðferðilegar, sem verði að skoða í kjölinn áður en þessi möguleiki yrði leyfður hérlendis. Segir hann ljóst að staðgöngumæðrun kalli á mikinn undirbúning bæði líkamlega og andlega þannig að öllum hlutaðaeigandi aðilum sé ljóst að hverju þeir gangi.

Meðal þeirra gagnrýnisradda sem heyrst hafa í umræðunni um lögleiðingu staðgöngumæðra eru að verði greitt fyrir meðgöngu staðgöngumóðurinnar bjóði það óneitanlega upp á að efnaminni konur gerist staðgöngumæður á viðskiptalegum grunni.

„Þetta má ekki verða atvinnuvegur,“ segir Matthías og telur heppilegra að staðgöngumóðir sé einhver sem sé nákomin hinum verðandi foreldrum. „Hins vegar er eðlilegt að staðgöngumóður sé greitt fyrir vinnutapið og þann kostnað sem hlýst af því að vera staðgöngumóðir, því það er auðvitað mikil fyrirhöfn og viss áhætta að ganga með barn,“ segir Matthías og bendir á að einnig þyrfti að skilgreina í lögum hver eigi rétt á fæðingarorlofi sé barn getið með aðstoð staðgöngumóður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert