Áhættufíklar sendir í meðferð

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Frikki

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði þegar hún setti flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar í Flensborgarskóla í Hafnarfirði  í dag, að sú einarða afstaða ríkisstjórnarinnar að standa við bakið á íslenska fjármálakerfinu þegar á móti byrjaði að bása, hafi verið var rétt og frá henni verði hvergi hvikað. 

„Það er ekki gert af tillitsemi við eigendur eða stjórnendur fjármálastofnanna heldur til að freista þess að varðveita fjármálastöðugleikann því ef hann brestur er mikil vá fyrir dyrum hjá íslenskum almenningi," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði að allir væri nú með hugann við þau tíðindi sem orðið hefðu í hagkerfi heimsins á undanförnum dögum. „Burðarvirki hins reglulausa hnattræna fjármagnsmarkaðar var að leysast upp fyrir augliti heimsbyggðarinnar og markaðurinn gat ekki lengur staðið óstuddur. Hann „leiðrétti” sig ekki sjálfur heldur flanaði stjórnlaust að feigðarósi með vanmati áhættu og ofmati eigna.

Almannavaldið, alþjóðastofnanir, ríkisstjórnir og Seðlabankar eru nú helstu bjargvættir fyrirtækja sem fyrir svo örskömmu voru sögð úrræðabetri en nokkur stjórnvöld gætu nokkurn tíma orðið," sagði Ingibjörg.

Hún sagði, að stjórnvöld verði að axla sína ábyrgð en það verði fyrirtækin og einstaklingarnir líka að gera, ekki síst þeir sem ekki létu sitt eftir liggja í áhættusækni og skuldsetningu sem ekki byggði á aukinni verðmætasköpun. „Um leið  er það skylda ríkisstjórnarinnar og allra ábyrgra Íslendinga – og þar tiltek ég sérstaklega ábyrga fjármagnseigendur - að horfast í augu við veikleika hagkerfisins hér heima og fjárfestinganna víða um heiminn,"

Ekkert hald í brigslyrðum 

Þá sagði hún að töfralausnir á vandanum í hagstjórn á Íslandi væru ekki til. Það sem gildi sé raunsætt mat, staðfesta, sanngirni og úthald. Það er ekkert hald í hávaða.

„Það er ekkert hald í brigslyrðum. Við  sem byggjum þetta land þurfum að þétta raðirnar, taka höndum saman, senda áhættufíklana í meðferð og bjóða þá velkomna aftur í uppbygginguna þegar runnið hefur af þeim.  Hreinsum til í hugarfari, lífsstíl og neyslu. Í róðrinum gegn verðbólgu þarf alla á árarnar. Fyrstu fréttir í áraraðir um minni einkaneyslu voru að berast. Þær bera skynsemi íslenskra fjölskyldna vitni. Fleiri slíkar fréttir næstu mánuði yrðu verðbólgueyðandi sprautur.  Fyrsta skylda okkar allra er að leggja ofurkapp á að vinna bug á verðbólgunni.

Ekki auðvelt að koma saman fjárlagafrumvarpi

Fram kom hjá Ingibjörgu Sólrúnu, að það væri ekki auðvelt verk að koma fjárlagafrumvarpinu saman en frumvarpið verður lagt fram á Alþingi 1. október.

„Mikilvægt er að gæta aðhalds í ríkisrekstrinum en engu að síður mega fjárlög ekki auka enn frekar þann samdrátt sem framundan er í samfélaginu. Fjárlögin hljóta að miða að því að jafna nokkuð þær sveiflur sem eru í hagkerfinu. Þannig hljóta þau í senn að verða aðhaldssöm en um leið innihalda verulega framlög til uppbyggingar innviða og stuðla að sterkara samfélagi," sagði Ingibjörg Sólrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert