Íhuga beri aðra mynt

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Brynjar Gauti

Ekki á að hika við að taka upp annan gjaldmiðil eða binda krónuna við erlendan gjaldmiðil ef það tryggir að fyrirtæki geti átt öll viðskipti, gert uppgjör og skráð eignir í valfrjálsri mynt.

Þetta kemur fram í ályktun frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna en hundrað meðlimir tóku þátt í sambandsþingi SUS sem lauk í Vestmannaeyjum í dag. Rúmlega hundrað manns voru á  þinginu og var yfirskrift þess ,,Nýtum tækifærið”.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, þau Árni M. Mathiesen, Einar Kristinn Guðfinnsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sátu í pallborði á þinginu í dag og svöruðu fyrirspurnum.

Á þinginu var rætt um ýmis málefni, svo sem sjúkratryggingar, einkavæðingu, orkunýtingu og hafrannsóknir.

Í ályktuninni segir meðal annars að íslenskt atvinnulíf hafi tekið miklum stakkaskiptum á síðustu árum. Muni þar mestu um sívaxandi þátt alþjóðlegrar þjónustu, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ljóst sé að skipan peningamála á Íslandi þurfi að vera með þeim hætti að íslenskt atvinnulíf sé samkeppnishæft og að Íslendingar geti keppt á alþjóðlegum markaði.

Ungir sjálfstæðismenn hvetji til þess að úttekt á árangri peningamálastefnunar hefjist sem fyrst. Kanna beri möguleika á því að tengja krónuna við evru, eða taka upp evru á grundvelli samstarfs okkar og samninga við önnur Evrópuríki.

SUS ítrekar þó andstöðu sína við inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Þá segir líka að ríkinu beri að nýta tækifærið sem skapist með aðhaldssömum fjárlögum og lækka skatta á einstaklinga eins og kveðið sé á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Sérstaklega skuli bent á að þáttur sveitarstjórna í rekstri hins opinbera hafi stóraukist og er brýnt sé að hemja þá gegndarlausu sóun sem á sér stað í sveitarfélögum, þar sem sveitarstjórnarmenn keppast við að yfirbjóða hver annan í framkvæmdagleði og útgjaldaloforðum.

Til þess sé nauðsynlegt að fyrirbyggja tafarlaust skuldasöfnun sveitarfélaganna með lögformlegum hætti, sem og að lækka hámarksútsvar.

Nauðsynlegt sé að halda áfram á braut einkavæðingar. Undirbúa þurfi Íslandspóst og RÚV undir einkavæðingu við fyrsta tækifæri.

Þá segir að breyta þurfi Háskóla Íslands í sjálfseignarstofnun og afnema afskipti stjórnmálamanna af menntun á háskólastigi.

Vefur SUS. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert