Fimm hafa sagt sig úr Lögreglufélaginu

mbl.is/Júlíus

Alls hafa fimm sagt sig úr Lögreglufélagi Reykjavíkur vegna ummæla Óskars Sigurpálssonar, formanns félagsins, í kvöldfréttum Sjónvarps á sunnudag. Líkt og fram hefur komið er Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra og yfirmaður sérsveitar embættisins, á meðal þeirra sem eru hættir.

Óskar sagði í samtali við Sjónvarpið að ríkislögreglustjóraembættið hefði að mörgu leyti verið tilraun sem hefði misheppnast. 

„Ég er alveg gáttaður á þessu,“ segir Óskar þegar mbl.is hafði samband við hann. Hann segir menn hafa farið offari út af þessu.

Spurður út í ummælin segir Óskar að spurning fréttamannsins hafi verið á þá leið hvort um misheppnaða tilraun hafi verið að ræða. „Það er nú kannski ekki beint hægt að orða það þannig að þetta hafi misheppnast. Ég vil bara segja að það eru þarna þættir sem má endurskoða. Það er mín skoðun,“ segir Óskar og tekur fram að þetta sé hluti af eðlilegri umræðu.

Óskar segist ekki hafa verið með neinn áróður gagnvart starfsemi sérsveitarinnar. „Ég tók undir orð Stefáns [Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins] hvað það varðaði að fá stjórn sérsveitarinnar til höfuðborgarsvæðisins ásamt fjarskiptamiðstöð. Ég er bara sjálfur þeirrar skoðunar,“ segir Óskar og bætir við að þetta komi Lögreglufélaginu ekki við með beinum hætti. 

Í gærkvöldi var stjórnarfundur hjá Lögreglufélagi Reykjavíkur þar sem samþykkt var yfirlýsing þar sem fram kemur að ummæli Óskars endurspegli ekki afstöðu stjórnarinnar.

Um 280 manns eru í félaginu, en það er aðeins hluti af heildarstarfsfjölda lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, starfsmanna ríkislögreglustjóra og nemenda í lögregluskólanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert