Enska ryður sér til rúms

Alþjóðleg samskipti í íslensku viðskiptalífi, starfsemi íslenskra fyrirtækja í mörgum löndum og fjöldi útlendinga sem starfar hér um lengri eða skemmri tíma hafa leitt til þess að enska hefur mjög rutt sér til rúms í viðskiptalífinu.

Þetta kom fram á morgunverðarfundi um íslenskt mál í viðskiptalífinu sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík í morgun. Að fundinum stóðu Íslensk málnefnd, Viðskiptaráð Íslands, Félag viðskipta- og hagfræðinga og viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Þar kom m.a. fram að notkun erlendra tungumála er óhjákvæmileg í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. En það er hægt að stemma stigu við því að útlenskan flæði um allt. Grípa verður til markvissra aðgerða eigi að treysta stöðu íslenskunnar og tryggja að hún verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. 

Fram komu ýmsar hugmyndir um leiðir til að treysta íslenskuna í sessi. Fyrirtæki geta t.d. markað sér málstefnu. Þau geta lagt meiri áherslu á að bjóða útlendum starfsmönnum upp á íslenskukennslu og þau geta stuðlað að því að íslenska verði ráðandi tungumál í starfsstöðvum hér á landi.

Þá þarf að efla íslenskukennslu á öllum skólastigum, styrkja þarf íslenska ritlist og stuðla að útgáfu íslenskra fræðirita. Einnig þarf að  auka mjög útgáfu orðabóka og nýyrðasafna og nýyrðasmíð þarf að vera í takt við þróun atvinnulífsins. Þá þarf að stuðla að því að íslensk máltækni í tölvum líti dagsins ljós.

Meira um málið í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert