Nýtt hjóla- og göngustígakort

Nýtt hjóla- og göngustígakort Reykjavíkur kom út í Evrópskri samgönguviku 2008, segir í frétt frá Umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar.

Kortið sýnir alla aðalstíga, malarstíga og tengistíga á höfuðborgarsvæðinu. Stígar eru númeraðir og vegalend sýnd. Kortið hentar þeim vel sem fara á milli borgarhverfa og bæjarfélaga án þess að nota bíla.

Sá sem ætlar til að mynda að fara frá Háskóla Íslands inn í Garðabæ getur fundið hentuga leið á korti áður en lagt er af stað. Dæmi um lengri hjólaleiðir er ein sem liggur eftir strandlengjunni frá Seltjarnarnesi, gegnum Grafarvog að Geldingarnesi og þaðan upp í Mosfellsbæ. Önnur leið liggur úr miðbæ Reykjavíkur gegnum Elliðaárdal og þaðan í Rauðhóla. Upplýsingaskilti og áfangastaðir fyrir hjólandi og gangandi eru einnig merktir inn á kortið.

Hjólreiðamenn hafa fullan rétt til að hjóla á umferðargötum. Hjólreiðamenn eiga að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda á göngustígum og gangstéttum. Bílstjórar eiga að taka fullt tillit til hjólreiðamanna á götum borgarinnar.

Áhugasamir geta fengið nýja kortið gefins í Þjónustuverinu í Borgartúni 10-12, í Ráðhúsi Reykjavíkur og í Upplýsingastofunni í Geysishúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert