Sparkaði í höfuð konu

Hópur vinkvenna sem voru á gangi í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins 13. september varð fyrir áreiti og síðan fólskulegri árás sem fólst í því að karlmaður stökk upp og sparkaði í höfuð einnar konunnar. Þeim fannst lögregla bregðast dræmt við tilkynningu um árásina.

„Það sem gerðist næst grunaði okkur aldrei að myndi henda okkur. Maðurinn stekkur upp og sparkar (eins og fótboltamenn taka bolta viðstöðulaust í loftinu) í höfuðið á einni vinkonunni, beint á gagnaugað. Hún vankast við höggið og grúfir sig í fangið á pistlahöfundi sem stóð næst henni. Þetta var ekki nóg því aftur reynir hann sömu tilþrif en mistekst þó í þetta sinn þar sem ég næ að draga hana í burtu. Eftir þetta hleypur hann bölvandi á brott." Þannig lýsir Kristín María Birgisdóttir árás sem vinkona hennar varð fyrir í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins 13. september sl.

Dónaskapur og áreitni

Lýsing Kristínar Maríu birtist á vefritinu Deiglunni í gær. Hún og þrjár vinkonur hennar höfðu verið á skemmtistað í Bankastræti en voru að ná í bíl Kristínar Maríu sem ætlaði að aka þeim heim. Þegar þær voru að ganga upp Þingholtsstrætið kom að þeim útlendingur, þjóðernið er óvíst en a.m.k. var hann ekki enskumælandi. „Hann skoppast þarna með okkur einhvern spöl, lætur leiðinlega og talar virkilega dónalega. Bíður í kynlífspartý og annað miður geðslegt. Eftir fréttir undanfarið um rán og líkamsárásir í miðbænum bað ég stelpurnar að sýna honum engan áhuga og svara ekki þeim sora sem hann spýtti út úr sér. Þolinmæði þeirra var þó öllu minni en mín og svo fer að ein þeirra biður hann vinsamlega að koma sér í burtu. Eitthvað féll það í grýttan jarðveg hjá manninum því í kjölfarið hrækir hann á hana. Henni sem næst stóð varð svo mikið um að ósjálfrátt hrækti hún til baka." Skiptir þá engum togum en að maðurinn sparkar í höfuð einnar þeirra.

Bað ekki um lýsingu

Vinkonurnar tilkynntu árásina þegar í stað til 112 og þeim var síðan gefið samband við lögregluna í Reykjavík. „Lögreglan hlustar á hvað hafði gerst en kippir sér þó lítið upp við það. Þegar undirrituð heyrir að ekki er farið fram á lýsingu á manninum bið ég vinkonu mína að gefa lögreglumanninum í símanum lýsingu. Hann þáði það en bauð ekki aðstoð að öðru leyti."

Skömmu síðar hittu þær lögreglumenn og gáfu þeim nákvæma lýsingu á árásarmanninum. Viðkomandi lögregluþjónn skrifaði þetta niður en bað þó hvorki um símanúmer þeirra eða annað, að því er segir í pistlinum.

Kristín María sagði í samtali við Morgunblaðið að þegar þær vinkonurnar gengu inn Þingholtsstrætið hafi umræddur maður verið að áreita unga konu sem þar var ein á ferð. „Maður veit ekki hvernig það hefði farið ef við hefðum ekki komið þarna."

Vinkona hennar sem fékk höggið var með höfuðverk daginn eftir en meiddist ekki alvarlega.

Fundu manninn en handtóku ekki

Eins og fram kemur hér að ofan er Kristín María Birgisdóttir ekki sátt við viðbrögð lögreglunnar við tilkynningu um árásina. Í pistlinum kemur ennfremur fram að hún bað lögreglumann sem hún þekkir og var á vakt þegar árásin var framin, um að kanna málið daginn. Hann fann ekkert skráð, enga tilkynningu um árás né nokkuð annað.

Að sögn Árna Þórs Sigmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, kom í ljós að málið var skráð með fullnægjandi hætti. Varðandi þá lýsingu Kristínar Maríu að lögregla hafi ekki óskað eftir símanúmerum þeirra segir Árni Þór að taka verði mið af því að lögreglumennirnir voru að sinna öðru verkefni á þessum tíma. Samt sem áður hafi lögreglu tekist að hafa uppi á manni sem samsvaraði lýsingunni skömmu síðar. Rætt hafi verið við hann og hann gat framvísað skilríkjum og þar með væri hægt að halda áfram með rannsókn málsins.

En var ekki ástæða til að handtaka manninn? Árni Þór segir að hafa verði í huga að lögreglumennirnir sem vinkonurnar ræddu við um nóttina voru uppteknir við önnur störf. Ekki hafi verið sýnilegir áverkar á konunni og það hafi verið mat lögreglumannanna að ekki hafi verið ástæða til að handtaka hann.

Sjá umfjöllun á Vefritinu Deiglunni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert