„Ég verð að víkja“

Víkurfréttir

 „Þetta var mjög erfiður fundur,“ sagði Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóri á Suðurnesjum að loknum fjölmennum fundi með starfsfólki sínu þar sem hann tilkynnti að hann myndi hætta sem lögreglustjóri 1. október og þrír stjórnendur með honum.

Jóhann sagðist hafa rakið fyrir samstarfsfólki sínu samskiptin við dómsmálaráðuneytið og kvað starfsfólkið gera sér grein fyrir eðli málsins. „Við fáum ekki sanngjarna málsmeðferð og ég held að landsmenn allir hafi séð að skýringar dómsmálaráðherra standast enga skoðun,“ sagði Jóhann og vísaði til skýringa ráðherra á þeirri ákvörðun að auglýsa stöðu lögreglustjórans. „Ég held að allra vegna, þá verði ég að víkja og ég vil að ráðherra fái tækifæri til að koma að þeim manni sem getur framfylgt stefnu hans í málefnum þessa embættis. Ég vona að það verði einhver góður maður,“ sagði Jóhann og útilokaði að hann myndi sjálfur sækja um stöðuna. „Það kemur ekki til greina,“ sagði hann.

Sagði hann rás atburða hafa verið mjög hraða að undanförnu og ekki væri hægt að svara því hvað tæki nú við hjá sér. Hann sagðist skilja við embættið á mjög erfiðum tíma. „Auðvitað óskar þess enginn að ganga úr embættinu við þessar aðstæður,“ sagði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert