Gæslufangar flestir erlendir

Fangelsið á Akureyri
Fangelsið á Akureyri mbl.is//Hjálmar

Sex af hverjum tíu einstaklingum sem hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á Íslandi það sem af er árinu 2008 eru erlendir ríkisborgarar. Í fyrra voru þeir um 26 prósent þeirra sem settir voru í gæsluvarðhald. Erlendir ríkisborgarar í gæsluvarðhaldi eru því hlutfallslega rúmlega tvöfalt fleiri en þeir voru árið 2007.

Alls hafa 115 gæsluvarðhaldsúrskurðir fallið á þessu ári yfir 110 einstaklingum. 66 þessara úskurða hafa fallið yfir erlendum ríkisborgurum, eða um 58 prósent. Sumir úrskurðanna eru til að framlengja gæsluvarðhald en samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun eru þeir ekki algengir. Níu af hverjum tíu erlendum ríkisborgurum sem úrskurðaðir eru í gæsluvarðhald hefja vistunina í einangrun. Á árinu 2008 hafa gæsluvarðhaldsfangar í einangrun verið sjö talsins að meðaltali á hverjum degi. Þar af hafa þrír að meðaltali verið erlendir ríkisborgarar. Einangrunarrými í íslenskum fangelsum eru átta talsins, sex á Litla-Hrauni og tvö í Hegningarhúsinu, og því er tæplega 90 prósenta nýting á þeim að meðaltali á hverjum degi. Í fyrra voru að meðaltali tveir gæsluvarðhaldsfangar í einangrun á degi hverjum.

Sexföldun frá aldamótum

Í tölum frá Fangelsismálastofnun kemur fram að 22 einstaklingar hafa setið í gæsluvarðhaldi að meðaltali á hverjum degi það sem af er ári. Á árunum 2001 til 2007 voru þeir að meðaltali fimmtán talsins. Þeir voru sautján í fyrra. Gæsluvarðhaldsföngum hefur því fjölgað mikið.

Alls hafa 24 erlendir ríkisborgarar setið í íslenskum fangelsum, í afplánun eða gæsluvarðhaldi, á hverjum degi það sem af er árinu 2008. Um aldamótin voru þeir að meðaltali fjórir á dag og fjöldi þeirra hefur því sexfaldast á örfáum árum. Þeir voru að meðaltali átján á dag í fyrra og hefur því fjölgað um fjórðung á einu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert