Flóttafólkið fékk gervihnattadisk

mbl.is

 Palestínsku flóttafjölskyldurnar á Akranesi fengu á miðvikudag kærkomna gjöf frá félaginu Ísland-Palestína og Félagi múslima á Íslandi. Safnað hafði verið fyrir gervihnattamóttökurum fyrir sjónvarp auk sex gervihnattadiska og var hverri fjölskyldu afhentur einn móttakari til að tengja á nýju heimilunum á Akranesi.

„Við fréttum, að eitt það fyrsta sem þessar konur hefðu spurt um, hefði verið hvernig þær gætu náð gervihnattasambandi til að geta í gegnum sjónvarp verið í tengslum við fréttir og menningu í sínum heimshluta,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins Ísland-Palestína. „Og þegar fyrsta peningaumslagið kom til þeirra spurðu þær einmitt hvar þær gætu keypt gervihnattadisk en Linda Björk, verkefnisstjóri Rauða krossins á Akranesi, bað þær þá aðeins að hinkra því það væri kannski von á því að þetta kæmi gefins.“ Var gjöfunum að vonum tekið fagnandi.

Í tilefni gjafanna og til að fagna komu hópsins hingað slógu Ísland-Palestína og Félag múslima til kaffiveislu í húsnæði Rauða krossins á Akranesi. „Við erum glöð og þakklát fyrir að þessi hópur er kominn til Íslands og við viljum bara gera allt til að auðvelda þeim dvölina og aðlögun að umhverfinu hér.“

Íslenskur og palestínskur menningarheimur blönduðust líka prýðilega í veislunni á miðvikudag, þar sem flóttafólkið gæddi sér á pönnukökum og hnallþórum og dansaði á eftir þjóðdansinn dabka fyrir veislugesti. „Þau dönsuðu og við sungum öll í kór og þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Sveinn að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert