Vigdís fyrsti sendiherra leiklistar í heiminum

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Ómar Óskarsson

Alþjóða leiklistarstofnunin, ITI, sæmdi Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands og leikhússtjóra Leikfélags Reykjavíkur titlinum Sendiherra leiklistar í heiminum (World Theatre Ambassador) við hátíðlega athöfn í gærkvöldi í Madrid á Spáni.

Alþjóða leiklistarstofnunin, sem stofnuð var í Prag 1948, heldur nú 32. alheimsþing sitt í höfuðborg Spánar, Madrid.

Hátíð var haldin við þinglok í gærkvöldi í tilefni 60 ára afmælis stofnunarinnar á þessu ári. Við þau hátíðarhöld var Vigdís sæmd titlinum, fyrst allra. Við sama tækifæri voru einnig, í kjölfar Vigdísar, sex aðrir heimsþekktir forkólfar leiklistar víðs vegar að úr veröldinni sæmdir sama titli, en þau eru:

Ellen Stewart leikhúsfrömuður í Bandaríkjunum og stofnandi La Mama leikhússins í New York, Vaclav Havel leikskáld og fyrrum forseti Tékklands, rússneski leikstjórinn Anatoli Vassiliev, leikskáldið og nóbelsverðlaunahafinn Wole Soyinka frá Nígeríu, breska leikskáldið Arnold Wesker og indverska leikskáldið Girish Karnad.

Viðar Eggertsson, leikstjóri og formaður LSÍ, hefur undanfarin sex ár setið í stjórn Alþjóða leiklistarstofnunarinnar og lét nú af störfum þar á yfirstandandi þingi. Hann var viðstaddur athöfnina þegar Vigdísi var veittur þessi mikli heiður leiklistarfólks í heiminum, ásamt Steinunni Knútsdóttur, leikstjóra og ritara LSÍ og Irmu Gunnarsdóttur, danshöfundi og gjaldkera LSÍ, en þau voru fulltrúar Íslands á þinginu ásamt Hrafnhildi Hagalín leikskáldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert