Maður handtekinn á dvalarstað hælisleitenda

Lögreglan utan við dvalarstað hælisleitenda í dag.
Lögreglan utan við dvalarstað hælisleitenda í dag. mbl.is/Ellert

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í dag karlmann á fertugsaldri, með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra, sem hafði látið ófriðlega og verið með hótanir á dvalarstað hælisleitenda í Reykjanesbæ.

Umsjónarmaður dvalarstaðarins hafði samband við lögregluna, en maðurinn, sem er erlendur hælisleitandi,  var vopnaður hníf og hótaði m.a. að skaða sjálfan sig.

Lögreglan hefur áður haft afskipti af manninum vegna ofbeldismála og hótana í garð annarra hælisleitenda. Hann var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldinu.

Hæstiréttur felldi hins vegar úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir manninum, sem var handtekinn 11. september sl. á dvalarstað hælisleitenda í Njarðvík. Ástæða handtökunnar var sú að tilkynnt hafi verið frá öðrum íbúum að þeim stæði ógn af manninum sem hefði hótað þeim með hnífi og hann lagt hendur á annan hælisleitanda.

Maðurinn hafði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 24. október í Héraðsdómi Reykjaness en Hæstiréttur taldi að ekki væru leiddar að því nægjanlegar líkur að maðurinn hefði gefið rangar upplýsingar um hver hann væri. Þá þóttu gögn málsins ekki fullnægjandi til að álykta með nægjanlegri vissu að af manninum stafaði slík hætta að nauðsynlegt væri að grípa til gæsluvarðhalds.

Lögreglan skoðar nú hvort hún eigi að fara aftur fram á það að maðurinn, sem er talinn vera hættulegur, verði úrskurðaður í gæsluvarðhald, með vísun til útlendingalöggjafarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert