Erfiðir gjalddagar framundan

Glitnir fékk ekki framlengingu á láni upp á 150 milljónir …
Glitnir fékk ekki framlengingu á láni upp á 150 milljónir evra. Friðrik Tryggvason

Atburðarásin sem leiddi til yfirtöku ríkisins á hlutum í Glitni hófst þegar ekki fékkst framlengt lán til Glitnis upp á 150 milljónir evra og farið var fram á að Glitnir greiddi lánið upp á gjalddaga 15. október.

Ein þeirra skýringa sem nefndar hafa verið, samkvæmt heimildum blaðsins, er sú að Seðlabankinn hafi fengið lán upp á 300 milljónir evra hjá sama banka. Og var því beint til Glitnis, samkvæmt sömu heimildum, að sækjast eftir láni frá Seðlabankanum.

Þá kemur fram að forsvarsmenn Glitnis hafi ekki talið sig geta sótt evrurnar á markað án þess að veikja krónuna verulega. Og bent er á að stórir gjalddagar hafi verið framundan hjá bankanum, meðal annars í janúar og febrúar, sem erfitt hefði reynst að standa við. Vonast er til að það að ríkið eignist hlut í bankanum liðki fyrir frekari fjármögnun.

En gjaldþrot Lehman Brothers 15. september vó eflaust þyngst í lausafjárkreppu Glitnis, órói á mörkuðum og gjaldþrot sem fylgdu í kjölfarið. Þá dró úr trausti á fjármálamarkaðnum og lokuðust lánalínur Glitnis „ein af annarri“, jafnvel hjá traustum bönkum. Eins og einn viðmælenda sagði í gær: „Menn vilja bara geyma peningana undir koddanum.“

Talað er um að það hafi verið nýtt í haust, þegar horft er til Lehman Brothers, hversu hröð atburðarásin var. „Lausafé hefur því meiri áhrif á virðismat en áður.“ Heyra mátti þá gagnrýni í gær að Glitnir hefði verið seinn af stað með innlánsreikninga erlendis, öfugt við Kaupþing og Landsbankann, og það spilaði inn í að lausafjárkreppan hefði komið harðar niður á bankanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert