Lægstu laun ljósmæðra

Átta ljósmæður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja treysta sér ekki til að taka aftur uppsagnir sínar nema kjör þeirra verði leiðrétt sérstaklega. Þær telja sig vinna á mesta láglaunasvæði sem finnist í ljósmóðurstarfi á Íslandi. Þær gefa þó svigrúm til að leita lausna.

Gálgafrestur

Á sáttafundi ljósmæðra og yfirmanna þeirra á fæðingardeild Sjúkrastofnunar Suðurnesja í gær var ákveðið að ljósmæður frestuðu því um mánuð að uppsagnir tækju gildi, meðan reynt yrði að leysa deiluna.

„Það sem ber í milli hér er að leiðrétta laun ljósmæðra á deildinni okkar og færa þau að launum ljósmæðra á sambærilegum stofnunum,“ segir Guðrún Guðbjörnsdóttir yfirljósmóðir. „Ég held að við gefum okkur tíma og gerumst bjartsýnar, þótt ekkert tilboð sé enn í hendi.“ Ljósmæðurnar átta sjá enga ástæðu til þess að Suðurnesin séu meira láglaunasvæði en Suðurland og Vesturland. „Við erum ekkert að bera okkur saman við Landspítalann, heldur við sambærilegar stofnanir,“ segir Guðrún. Ekki náðist í forsvarsmenn stofnunarinnar, sem býr við þröngan hag og lítur til leiðréttinga á fjárlögum og fjáraukalögum.

Ljósmæður og þjóðarskútan

Uppsagnir ljósmæðra taka almennt gildi á morgun, fyrsta október. Síðustu daga hefur víðast tekist að ganga frá stofnanasamningum og uppsagnir hafa verið teknar aftur. Læknar bera sig nú saman við ljósmæður í kröfum sínum og sumir stjórnmálamenn og talsmenn atvinnulífsins telja ljósmæðrasamninginn ógna stöðugleika. Guðlaug Einarsdóttir, formaður Félags ljósmæðra, segir að ef ljósmæðrasamningurinn ríði baggamuninn núna, hljóti ljósmæður að hafa haldið þjóðarskútunni gangandi í ansi mörg ár. Læknar séu að bera saman ólíka hluti en eins og ljósmæður séu þeir mannauðurinn sem heilbrigðiskerfið byggist á.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert