Drógu umsóknir til baka eftir húsleit

Víkurfréttir

Við húsleit Útlendingastofnunar hjá rúmlega 40 hælisleitendum í Reykjanesbæ þann 11. september síðastliðinn fundust gögn um að tæplega 10 manns hefðu verið við störf hér á landi um lengri eða skemmri tíma samtímis því sem þeir fengu frítt uppihald og fæði. Nokkrir hafa dregið til baka umsóknir sínar um hæli í kjölfar húsleitarinnar.

„Þetta var í meiri mæli en við höfðum áttað okkur á. Það var verið að nota þetta fólk sem ódýrt vinnuafl,“ segir Haukur Guðmundsson, forstjóri Útlendingastofnunar.

Hann segir markmið húsleitarinnar einkum hafa verið þau að leita að skilríkjum og öðrum gögnum sem varpað gætu ljósi á hverjir viðkomandi væru í raun og feril þeirra í öðrum löndum.

Gild dvalarleyfi annars staðar

„Hjá fjórum hælisleitendum frá Albaníu fannst verulegt fé og var þeim tilkynnt að ekki yrði áfram greiddur framfærslukostnaður fyrir þá. Þeir hafa dregið til baka umsóknir sínar um hæli. Í ljós hefur komið að þeir eru allir með gild dvalarleyfi í Grikklandi til 2015 en hafa á síðustu 7 árum verið í hælismeðferð alls staðar annars staðar á Norðurlöndum,“greinir Haukur frá.

Hann segir jafnframt hafa komið í ljós að franskur ríkisborgari sem er réttilega skráður í landinu hafi gist hjá vini sínum, hælisleitanda sem kveðst vera frá Alsír en grunur leikur á að sá sé einnig franskur.

Hjá einum hælisleitanda fannst sænskur refsidómur vegna alvarlegrar líkamsárásar hans. „Þessi hælisleitandi hefur eftir aðgerðina ranglega haldið því fram í fjölmiðlum að lagt hafi verið hald á fé hans og hann hefur freistað þess að knýja á um greiðslu þess, meðal annars með því að lýsa yfir hungurverkfalli. Þessar yfirlýsingar eru ekki í samræmi við skýrslur lögreglu og lögmanns sem fylgdist með aðgerðinni fyrir hönd hælisleitenda og gætti hagsmuna þeirra,“ tekur Haukur fram.

Annar með vegabréfið

Við húsleitina fannst ekkert í fórum kínversks borgara sem beðið hefur um hæli. „Á hinn bóginn fannst vegabréf viðkomandi við tollskoðun á öðrum Kínverja við komu hans til landsins síðar sama dag. Það vegabréf er á öðru nafni en gefið var upp í hælisbeiðni. Það reyndist hafa verið gefið út og afhent hælisleitandanum sjálfum í Hollandi á þeim tíma sem viðkomandi kvaðst hafa verið í þrælkun á Íslandi. Þessi hælisleitandi er meðal þeirra sem dregið hafa umsókn sína til baka,“ segir Haukur sem kveðst ánægður með árangurinn af húsleitinni.

Hann tekur það fram að Útlendingastofnun vilji ekki gera lítið úr óþægindunum sem viðkomandi urðu fyrir vegna húsleitarinnar. „Þarna eru margir sem eru að reyna að leita skjóls en aðrir sem eru einfaldlega að misnota þetta úrræði. Við getum hins vegar ekki látið sem þarna sé allt með felldu þegar við höfum sterkar vísbendingar um að svo sé ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert