Þurrkað höfuð í Kópavogi

mbl.is

175 ára gamall ættarhöfðingi og töframaður Shuar-indíánaþjóðflokksins í Ekvador var í dag boðinn velkominn á suður-ameríska menningarhátíð í Náttúrufræðistofu Kópavogs enda heiðursgesturinn. Töframaðurinn hefur ferðast víða en þó ekki í heilu lagi. Höfuð hans, sem hefur verið þurrkað og hert, er nefnilega aðalaðdráttaraflið.

Í fréttatilkynningu frá Kópavogsbæ segir:

„Hinn aldni töframaður hefur ferðast yfir höfin en er að öllu jöfnu meinilla við slík ferðalög enda hefur ýmislegt komið upp sem tafið hefur förina. Leyfi til flutnings á fornleifum frá Ekvador barst seint, millilendingar urðu fleiri en áætlað var, sendingin tafðist í Bogota þar sem henni var skipt út fyrir blóm og ávexti og í Amsterdam tók lögreglan sér rúman tíma í að leita í sendingunni vegna hættu á innflutningi á ólöglegum efnum frá Suður-Ameríku.

Að lokum hafðist þetta en hinn gamli höfðingi hafði ekki sagt sitt síðasta. Þegar Kópavogsbúar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins vöknuðu í morgun hafði veturinn haldið innreið sína og jörð orðin alhvít. Nú verður spennandi að sjá hvernig Shuar-höfðinginn kann við sig í Kópavogi – hver veit nema dularfullir atburðir muni eiga sér stað?“

Þá er einnig útskýrt hvernig stendur á þurrkaða og herta mannshöfðinu:

„Átök þjóðflokka á Amazón-svæðinu hafa einkennst af trúarlegu ívafi og flóknum hefðum. Samfélög Shuar- og Ashuar-manna voru einkar herská. Sá siður Shuar-fólks að taka höfuð valdamikilla óvina, herða það og smækka og sauma fyrir vitin gegndi mikilvægu hlutverki. Það var trú þeirra meðal annars að þannig ætti óvinasálin ekki afturkvæmt og kæmi ekki við hefndum. Höfuðið á sýningunni í Safnahúsinu er í eigu Inti-Ñan safnsins í Quito, höfuðborg Ekvador. Það var Shuar-fólk sem færði safninu hausinn að gjöf árið 1925 en hann fannst á Chirapas-búsvæði Shuar-fólksins, við bakka Pastaza- og Tiputini-ánna, djúpt inni í frumskógi Amazón. Höfuðið tilheyrði síðhærðum Shuar-öldungi, líklega töfralækni eða leiðtoga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert