Allir róa í sömu átt

Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, hefur setið á fundum …
Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, hefur setið á fundum með ráðherrum í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, yfirgaf Ráðherrabústaðinn um klukkan 13 og sagðist vera á leið upp í viðskiptaráðuneyti til að halda áfram vinnu þar. Hann sagði, að félagar sínir í ríkisstjórninni myndu funda með verkalýðshreyfingunni síðar í dag.

Björgvin sagði fátt við blaðamenn og vildi ekki segja hvenær eitthvað yrði látið uppskátt um vinnu helgarinnar en það yrði gert um leið og mögulegt væri.

Hann sagði að mikil fundahöld hefðu verið um þá efnahagserfiðleika, sem steðjað hafa að Íslendingum og þar væri allt undir. Hann lagði áherslu á, að allir sem að málinu hefðu komið væru að róa í sömu átt. Össur Skarphéðinsson hefur einnig yfirgefið Ráðherrabústaðinn en eftir sitja ráðherrar Sjálfstæðisflokks.

Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og fyrrverandi forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, kom af fundi í Ráðherrabústaðnum nú eftir hádegið en vildi ekki ræða við fréttamenn.
Þá sat Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla, einnig fund með ríkisstjórninni í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert