Ekki þörf á aðgerðarpakka

Geir Haarde ræðir við fréttamenn í ráðherrabústaðnum í dag
Geir Haarde ræðir við fréttamenn í ráðherrabústaðnum í dag mbl.is/Brynjar Gauti

„Þessi helgi hefur skilað því að við teljum núna ekki lengur nauðsynlegt að vera með sérstakan pakka með aðgerðum,“ sagði Geir H. Haarde þegar hann gekk af fundi með ríkisstjórninni í Ráðherrabústaðnum fyrir stundu.

Hann sagðist ánægður með fundi helgarinnar, nú væri ekki lengur jafnmikil spenna í málunum eins og verið hefði fyrir helgi. Hann sagði almenna samstöðu ríkja um að íslensku bankarnir þurfi nú að minnka umsvif sín á erlendri grundu.

„Ég er mjög ánægður með viðbrögð aðila vinnumarkaðarins um það sem við höfum rætt við þá. Við höfum verið að fara yfir þessi mál öll með íslensku bönkunum til að tryggja fjármálastöðugleika og innistæðu almennings í bankakerfinu og ég er mjög ánægður með það að bankarnir ætli að minnka við sig.  Það er mjög góður vilji hjá bönkunum um að selja eignir í útlöndum og ég tel að það sé nauðsynlegt.“

Geir sagði að ekki yrði gripið til neinna sérstakra ráðstafana hér og nú og hann teldi heldur ekki ástæðu til þess. Hann neitaði því að búið væri að útvega 500 milljarða lánalínu frá Seðlabanka Evrópu. Hann vildi ekki gefa upp hvort von væri á tilkynningu fyrir opnun markaða í fyrramálið.

Fundi ríkisstjórnarinnar er nú lokið og sagðist Geir vera á leið á fund með þingflokki Sjálfstæðisflokksins. „Svo ætla ég heim og vonast til að geta fengið smá hvíld. Það er varla að ég sé búinn að borða morgunmat.“

Ekki verður fundað með fulltrúum lífeyrissjóðanna í kvöld eða nótt en stefnt er að fundi klukkan 11 í fyrramálið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert