Fundi lokið með SA og ASÍ

Vilhjálmur Egilsson hefur setið á stöðugum fundum um helgina.
Vilhjálmur Egilsson hefur setið á stöðugum fundum um helgina. mbl.is/Brynjar Gauti

 Fulltrúar vinnumarkaðarins og verkalýðsins fóru af fundi með forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu nú um níuleytið í kvöld eftir klukkustundar langan fund. Stuttu eftir að fundinum lauk komu Glitnismenn í Ráðherrabústaðinn.

Fulltrúar vinnumarkaðarins og verkalýðsins fóru af fundi með forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu um níuleytið í kvöld eftir klukkustundar langan fund.

Þau Vilhjálmur Egilsson og Þór Sigfússon hjá Samtökum atvinnulífsins og Grétar Þorsteinsson, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir og Gylfi Arnbjörnsson hjá Alþýðusambandi Íslands mættu til fundar kl. 20 eins og boðað hafði verið. Þau vildu lítið tjá sig við fréttamenn og sagði Vilhjálmur Egilsson að sjálf hefðu þau ekki fengið nógu skýr svör til að geta gefið neitt uppi.

Ögmundur Jónasson og Eiríkur Jónsson, sem sitja í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sátu einnig fundinn með SA og ASÍ. „Fundurinn var ákaflega gagnlegur,“ sagði Ögmundur. „Ríkisstjórnin fór yfir stöðu mála, en enn er það svo að henni verður best lýst sem stóru spurningarmerki, því það eru ekki komin nægilega skýr svör frá fjármálastofnunum til að lífeyrissjóðirnir séu reiðubúnir að gera upp sinn hug um hvort þeir séu tilbúnir að flytja fjármagn til landsins.“

„Við erum fyrst og fremst að leita eftir svörum um framlag lífeyrissjóðanna, við viljum að ákveðnum skilyrðum sé fullnægt þannig að hagsmuna þeirra sem fé eiga í sjóðunum sé gætt.“ Aðspurður hvort tíðinda væri að vænta sagðist Ögmundur ekki geta sagt til um það, „en ég held að menn hugsi í mínútum og klukkustundum. Við höfum í farteskinu opinn huga og mjög mikinn velvilja.“

Eiríkur Jónsson hafði svipað að segja fjölmiðlum. „Í mínum huga vantar svör frá fjármálakerfinu í landinu og hvað bankar og fjármálastofnanir ætla að gera,“ sagði Eiríkur.

Stuttu eftir að fundinum lauk komu í Ráðherrabústaðinn Glitnismenn, þeir Lárus Welding og Þorsteinn Már Baldvinsson auk Óskars Magnússonar, og skömmu síðar ráðherrar ríkisstjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert