Hvetja til rannsóknar

Hæstaréttardómararnir  Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson hvetja Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara, til að verða við beiðni um opinbera rannsókn á Hafskipsmálinu svokallaða.

Þetta kemur fram í bréfi sem Garðar Garðarsson hrl. hefur sent ríkissaksóknara fyrir hönd umbjóðenda sinna, þ.e. Gunnlaugs þáverandi ríkislögmaður og Markúsar þáverandi borgarfógeta í Reykjavík.


Ríkissaksóknara barst í síðustu viku beiðni um opinbera rannsókn málsins frá Ragnari Aðalsteinssyni hrl. fyrir hönd fyrrverandi stjórnenda Hafskips með Björgólf Guðmundsson í broddi fylkingar. Samkvæmt upplýsingum frá Garðari óskaði hann þegar eftir afriti af bréfi með kröfu um rannsókn Hafskipsmálsins.

Í bréfi Garðars til ríkissaksóknara segir m.a.:

„Krafa rannsóknarbeiðenda er um mjög víðtæka rannsókn á mörgum þáttum umrædds máls, jafnt á huglægum þáttum sem efnislegum, en erfitt er að henda reiður á mörgum atriðum í bréfinu. Þar eru umbjóðendur mínir, þeir Gunnlaugur Claessen, þáverandi ríkislögmaður, og Markús Sigurbjörnsson, þáverandi borgarfógeti í Reykjavík, meðal margra annarra, bornir ýmsum sökum og fundið að vinnubrögðum þeirra í málinu. Þar dregin upp mjög villandi lýsing af atvikum máls og ályktanir settar fram um huglæga afstöðu umbjóðenda minna við störf þeirra, sem eiga sér enga stoð.


Þótt ekki verði séð að nokkrar nýjar staðreyndir um atvik, sem gerðust fyrir rúmum tveimur áratugum, komi fram í bréfi rannsóknarbeiðenda eru ásakanir þær sem bornar eru á umbjóðendur mína þess eðlis að ekki verður við unað. Er það því í þeirra þágu að umbeðin rannsókn fari fram og vilja þeir eindregið hvetja til að orðið verðið við beiðninni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert