Ólafur F.: Leggur til niðurfellingu fargjalda í Strætó

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon. mbl.is

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Frjálslynda flokksins, mun á morgun leggja til í borgarstjórn Reykjavíkur að fargjöld hjá Strætó verði felld niður frá og með næstu áramótum.

Greinargerð með tillögunni er eftirfarandi:

„Kostnaður vegna rekstrar strætó bs er ríflega 3 milljarðar króna á ári.  Fargjaldatekjur á móti eru kr 580 milljónir á ári en væru kr 900 milljónir ef ekki kæmi til afsláttur vegna framhaldsskólanema kr 320 milljónir á ári. 

Fargjaldatekjur vegna eldri borgara og öryrkja er kr 40 milljónir á ári en vegna barna og unglinga að 18 ára aldri kr 140 milljónir.  Samanlagður fargjaldatekjur vegna barna, unglinga, eldri borgara og öryrkja nema því kr. 180 milljónir á ári, en það var einmitt á stefnuskrá meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks að fella þessi fargjöld niður. 

 Fargjaldatekjur vegna almennra farþega, sem ekki tilheyra námsmönnum eða yngstu og elstu aldurshópunum, nema kr. 400 milljónir ári.

Það er skoðun tillöguflytjanda að mikill ávinningur og einnig sparnaður geti hlotist af niðurfellingu strætófargjalda.tillögunni, enda er með gjaldfrjálsum almenningssamgöngum verið að gera fólki að nýta ókeypis strætóferðir á tímum hækkandi eldsneytisverðs og erfiðleika í rekstri heimila í borginni.  Ávinningurinn með því að fella niður innheimtu fargjalda að upphæð kr 580 milljónir er margfaldur, ef það tekst að stórauka nýtingu almenningssamgangna í borginni, sem þýðir minni mengun, minni kostnaður við gerð og viðhald umferðarmannvirkja og minni kostnaður fjölskyldna í Reykjavík vegna rekstrar bifreiða.  Ekki má heldur gleyma að sparnaður í skriffinnsku er umtalsverður með niðurfellingu fargjalda en áætlanir R-listans á sínum tíma um svokölluð smartkort runnu út í sandinn þegar eytt hafði verið kr 250 milljónum í þær.

Hér er um víðtækt almannahagsmunamál að ræða, þar sem ávinningurinn felst auk sparnaðar í betri og vistvænni ferðamáta, greiðari samgöngum og réttlátari fjölskyldustefnu. 

Gæluverkefni á borð við neðanjarðarstokka í borginni fyrir tugi milljarða króna má ýmist hætta við eða slá á frest og ber þar fyrst að nefna fyrirhugaðan stokk frá Sjávarútvegshúsinu við Sæbraut yfir í Ánanaust.  Tillöguflytjandi hafnar þessari forgangsröðun ásamt fyrirætlunum um hækkun strætófargjalda.  Fyrirætlanir sjálfstæðismanna um hækkun þjónustugjalda og rándýrar stokkaframkvæmdir er röng forgangsröðun þegar þjarmað hefur verið að efnahag og velferð heimila í borginni.  Þvert á móti ber að forgangsraða í þágu þjónustunnar við fólkið í borginni og forðast offjárfestingar og miklar lántökur á kostnað almennings."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert