Hafskip enn í skotlínu

Útvegsbankinn gekk frá sölu á eignum Hafskips nokkrum dögum áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Samningunum var haldið leyndum, meðal annars fyrir stjórnendum Hafskips. Kemur þetta fram í bók Björns Jóns Bragasonar sagnfræðings, „Hafskip í skotlínu“, sem kom út í gær. Fyrrum stjórnendur Hafskips byggja kröfu sína um opinbera rannsókn í Hafskipsmálinu meðal annars á rannsóknum bókarhöfundar.

„Það kom mér einna mest á óvart hvernig virðist hafa verið gengið frá sölu á eignum félagsins fyrir gjaldþrot,“ segir Björn Jón um niðurstöður rannsókna sinna á Hafskipsmálinu. Hann vísar til upplýsinga sem fram koma í bókinni um samninga stjórnenda Útvegsbankans og Eimskipafélagsins aðfaranótt 1. desember 1985 um kaup Eimskips á eignum Hafskips, að eigendum Hafskips og stjórnendum forspurðum. „Ég fann alla þá samninga og sá hvernig Útvegsbankinn skuldbatt sig til þess að leita allra leiða til þess að Hafskipsmenn gæfu félagið upp til gjaldþrotaskipta. Þeir sögðu þeim hins vegar ósatt um ástæður þess, sögðu að taka yrði félagið til skipta til að aflétta kyrrsetningu Skaftár en það var tylliástæða eins og einn af bankastjórum Útvegsbankans skýrði fyrir mér,“ segir Björn Bragi.

Hafskip var gefið upp til gjaldþrotaskipta 6. desember 1985. Frá því um mitt sumar höfðu stjórnendur félagsins reynt að selja rekstur þess. Meðal annars var rætt við Eimskip og skipadeild Sambands íslenskra samvinnufélaga. Fram kemur í bókinni að minnstu hafi munað að Sambandið tæki upp samstarf við Hafskipsmenn um rekstur nýs skipafélags. Eftir að stjórn SÍS felldi tillögu um það hófust viðræður eigenda Íslenska skipafélagsins og Útvegsbankans um leiðir til að halda rekstrinum áfram. Sérstakur trúnaðarmaður viðskiptaráðherra í málinu, Gunnlaugur Claessen ríkislögmaður, taldi í skýrslu til ráðherra að með stofnun Íslenska skipafélagsins hefði tekist að bjarga fjármunum sem ella hefðu farið forgörðum. Fram kemur í bókinni að fjórum dögum síðar hafi hann lagt til að Útvegsbankinn og Eimskipafélagið gerðu með sér bindandi samning um tilboð Eimskips í eignir Hafskips eftir að félagið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þessi aðferð var nefnd „hreina leiðin“. Matthías Bjarnason, sem þá var viðskiptaráðherra, lýsti því yfir við bókarhöfund að honum hefði verið ókunnugt um þessa samninga og teldi að ríkislögmaður hefði farið út fyrir verksvið sitt með því að stuðla að þeim. Þá kemur einnig fram að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri hafi verið milligöngumaður við samninga Útvegsbankans og Eimskips.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert