Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson. mbl.is/Ómar

„Við erum að ákveða að við ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna,“ sagði Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, í Kastljósi í kvöld. Ríkið muni ekki borga skuldir bankanna „sem hafa farið dálítið gáleysislega.“

Davíð segir að áður hafi menn trúað því að íslenska ríkið myndu reyna að borga allar skuldir íslensku bankanna.

„Þegar skuldirnar eru orðnar þannig að íslensku bankarnir þurfa 50-55 milljarða evra á þremur til fjórum árum næstu - og geta ekki útvegað sér það því þeir markaðir eru lokaðir - þá værum við að setja slíkan skuldaklafa á börnin okkar og barnabörnin, að það væri þrældómur fyrir annarra manna sök,“ sagði Davíð í viðtali við Kastljósið.

Davíð segir að aðferðin sé sú sama og Bandaríkjamenn gerðu við Washington Mutual. „Þeir segja að þessir aðilar sem lánuðu peninga í alls konar verkefni sem ekki fengust staðist að lokum - kannski voru þau góð ef allt hefði gengið rosalega vel og engin vandamál hefðu komið í heiminum - [...] lánuðu þessa peninga til að græða á því - ekkert ljótt við það - og þeir verða að sitja uppi með það, en ekki saklausir borgarar.“

Að sögn Davíðs er Glitnir ekki lengur á forræði Seðlabankans heldur íslenskra stjórnvalda. Það hafi í raun verið óheppilegt af eigendum Glitnis að boða ekki strax til hluthafafundar hjá bankanum á mánudaginn í síðustu viku því þá væri íslenska ríkið búið að setja 84 milljarða króna inn sem hlutafé í bankann. Nú væru náttúrulega gjörbreyttar aðstæður og ríkið komi ekki inn með hlutfé inn í Glitni nema ef Glitnir verði til sem banki á laugardaginn þegar hluthafafundur bankans verður haldinn.

Sagði Davíð að þær tryggingar sem Glitnismenn hafi boðið þegar þeir óskuðu eftir láni hjá Seðlabankanum hafi m.a. verið í bílalánum og fasteignalánum. 

Aðspurður um þá miklu gagnrýni sem hann hafi fengið frá aðaleigendum Glitnis sem hefðu meðal annars lýst eignartökunni sem stærsta bankaráni Íslandssögunnar sagði Davíð að menn litu væntanlega ekki á fund með  Seðlabankastjórum um fjárhagserfiðleika  viðkomandi sem kaffibollaspjall.

Varaði margoft við þróuninni

Davíð sagðist margoft hafa gengið á fund forráðamanna ríkisstjórnarinnar og lýst miklum áhyggjum af þeirri stöðu, sem bankarnir væru að koma þjóðfélaginu í.

„Ég held að margir hafi talið að ég væri allt, allt of svartsýnn en ég þóttist sjá að þetta dæmi gæti aldrei gengið upp. Það sagði ég við bankana og lýsti því reyndar nákvæmlega við einn af bankastjórunum fyrir 12-14 mánuðum, hvaða staða gæti verið komin upp eftir þennan tíma. Ég hefði gjarnan viljað hafa haft rangt fyrir mér í því," sagði Davíð.

Davíð sagðist auðvitað bera ábyrgð á því að hafa opnað þjóðfélagið og gerði það frjálsara og þar með hefðu menn fengið tækifæri til að láta ljós sitt skína. „En ég get ekki borið endalausa ábyrgð á því að menn misnoti það frelsi," sagði Davíð.

Hann sagði að Íslendingar gætu komið mjög sterkir út úr þessum umbrotum úr því ákveðið var að fara þá leið, sem stjórnvöld hafa nú valið og Seðlabankinn vildi: „Við ætlum ekki að láta þessa kreppu lenda með fullum þunga á íslenskum almenningi," sagði Davíð.

„Um leið og matsfyrirtækin og erlendar lánastofnanir átta sig á að við ætlum ekki á leggja þessa skuldaklafa á þjóðina mun staða Íslands gerbreytast og gengið styrkjast og ég held að við þurfum ekki langan tíma til þess."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert