Fá ekki afgreiddar vörur nema gegn staðgreiðslu

Fjölmörg dæmi hafa verið um það í dag að innflutningsfyrirtæki fá ekki afgreiddar vörur eða pantanir nema gegn staðgreiðslu. Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, staðfesti í samtali við mbl.is að fyrirtækið hefði lent í þessu í dag í viðskiptum við fyrirtæki í Þýskalandi og fleiri löndum.

Hermann sagðist vita um mörg önnur íslensk fyrirtæki sem hefðu lent í þessu sama. Hermann segir N1 ekki lenda í því að fá ekki olíu afgreidda, enda hafi ráðamenn þjóðarinnar lýst yfir að svo verði ekki,  en hins vegar sé ljóst að borið geti á vöruskorti á innfluttum vörum á einhverjum sviðum á næstunni.

„Margir hafa verið að óska skýringa á ástandinu á Íslandi. Sumir hafa fengið um það fyrirmæli frá sínum tryggingafélögum, sem tryggja útflutning fyrirtækjanna, að Ísland sé komið í staðgreiðsluviðskipti, bara heildin, og engin fyrirtæki tekin sérstaklega út úr hvað það varðar. Þetta er ein af þeim afleiðingum sem nú dynja yfir íslenskt viðskiptalíf þessa dagana. Lán birgja til íslenskra fyrirtækja almennt eru mikið til að hverfa, á meðan þessi óvissa ríkir um hvað tekur við," segir Hermann og telur að um tímabundið ástand sé að ræða. Það muni vonandi lagast á næstu dögum og vikum.
Að sögn Hermanns á þetta við um flest okkar helstu viðskiptalönd, eins og Norðurlöndin, Bretland, Þýskaland og Bandaríkin.

„Fréttin um Ísland fer eins og eldur um heimsbyggðina, við erum forsíðufrétt allstaðar og skiljanlega grípur um sig ótti hjá okkur viðskiptavinum. Ég tel þetta ekki vera stórmál til lengri tíma litið. Þetta er stundarhræðsla sem grípur um sig. Síðan munu birgjar og fyrirtæki hér innanlands fara yfir stöðuna og tryggja aftur eðlileg fyrirgreiðsluviðskipti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert