Óvissa með uppsagnarfrest

Höfuðstöðvar Landsbankans.
Höfuðstöðvar Landsbankans.

Ekki er ljóst hvort þeim starfsmönnum Landsbanka Íslands sem sagt hefur verið upp störfum eftir yfirtöku skilanefndar á bankanum verði greiddur þriggja mánaða uppsagnarfrestur, að sögn Helgu Jónsdóttur, formanns félags starfsmanna Landsbankans. Helga gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega og segir hana með þessu ganga á bak loforða sinna.

„Þrátt fyrir digurbarkaleg orð Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra um að enginn myndi tapa neinu eða missa vinnuna og svo framvegs þá virðist raunin ætla að verða önnur,“ segir Helga.

„Það er ekki búið að segja neinum upp. Heldur er búið að tala við fullt af fólki og segja því að það fái ekki vinnu í nýja bankanum. Það er hlutverk skilanefndarinnar að segja upp fólki og ganga frá málum og þess vegna er þetta allt óljóst.“

Gamli Landsbankinn hafði um 1.500 manns í vinnu hérlendis, en samkvæmt fréttatilkynningu um starfsemi Nýja Landsbanka Íslands hf. verða starfsmenn hans um eitt þúsund. Þetta þýðir að um 500 starfsmenn Landsbankans missa vinnuna.

Helga Jónsdóttir.
Helga Jónsdóttir. mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert