Engar millifærslur til eða frá Íslandi hjá Danske Bank

mbl.is/GSH

Danske bank leyfir ekki millifærslur á peningum til og frá íslenskum bönkum. Viðskiptavinum Danske bank hefur verið tilkynnt þetta í netbönkum sínum. Morgunblaðið náði tali af Jonas Sunn Torp, blaðafulltrúa bankans og spurði af hverju gripið væri til þessara ráðstafana.

„Það er ekkert verð á íslensku krónunni á þessum tímapunkti. Við getum ekki millifært peninga í gjaldeyri þar sem við getum ekki gefið viðskiptavininum upp neitt verð í þeim gjaldeyri. Við fáum engan til þess að gefa okkur ákveðið verð. Það er því algjörlega ómögulegt fyrir okkur að breyta dönskum krónum í íslenskar," sagði Torp. En ástæðurnar eru í raun tvær, eða vandamálið tvíþætt.

„Í öðru lagi erum við með vandamál í því að tryggja peninga viðskiptavina okkar, ef við sendum peninga til eða frá Íslandi. Því bankarnir á Íslandi gefa okkur ekki fullnægjandi tryggingar fyrri því að við getum tryggt peninga viðskipta vina okkar. Við viljum ekki hætta peningum þeirra," sagði Torp.

Hann virtist mjög leiður yfir þessari stöðu. „Trúðu mér, við vildum svo gjarnan þjónusta íslenska banka, það er hluti af okkar venjulegu viðskiptum, en við getum það ekki. Viðskiptavinum okkar mislíkar þetta mjög, en við getum ekki breytt heiminum. Það er ekkert fast verð fyrir krónuna núna."

Eruð þið að reyna að laga þetta, eða ræða við Íslendinga um þetta? var hann þá spurður. „Hverja einustu mínútu erum við að reyna að laga þetta. Það er unnið með okkur á Íslandi. Við erum í viðræðum við Seðlabanka Íslands og íslensku bankana."

Torp vildi ekki gefa upp hvaða íslenski banki lenti í þessu fyrst, en vandamálið byrjaði fyrir þremur til fjórum dögum. Síðan í gær hefur staðan verið þessi um nánast alla íslenska banka, en hann vildi ekki gefa upp hvort millifærslur frá ákveðnum bönkum séu enn leyfðar, en gaf það í skyn. Hann kvaðst ekki vita hversu lengi þetta vandamál á eftir að vara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert