Gríðarlegur vandi námsmanna

Fjöldi íslenskra námsmanna er að lenda í gríðarlegum erfiðleikum um þessar mundir, að sögn Garðar Stefánssonar, formanns SÍNE. Búið er að loka á millifærslur í bönkum í nær öllum löndum sem námsmennirnir dvelja og símhringingum og tölvupóstum rignir inn á skrifstofu SÍNE.

Garðar segir algjört ófremdarástand ríkja og stjórnvöld verði að koma námsmönnum til bjargar. Vonaðist hann eftir einhverjum aðgerðum að hálfu menntamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins í dag. Um 3.300 námsmenn eru erlendis, þar af um 2.000 í Danmörku, þar sem ástandið virðist vera hvað verst.

,,Þetta er að gerast alls staðar, námsmenn eru ekki að fá peninga út úr bönkum en langflestir eru með reikninga sína hér á landi. Þeir eru í verstri stöðu og ekki síst þeir sem eru að hefja nám og eru að koma sér fyrir. Það þarf að grípa til einhverra ráðstafana, hvort námsmenn geti leitað til sendiráðanna eða eitthvað annað. Fólk hefur varla efni á að kaupa nauðsynjavörur ef það er ekki með peninga undir höndum og öllum kortum er hafnað. Þetta er algjört rugl. Þeir sem eru að velta fyrir sér að snúa heim, geta það ekki einu sinni ef engir peningar fást,," segir Garðar.

Fram kemur á heimasíðu Háskólans í Reykjavík að skólinn muni aðstoða íslenska námsmenn erlendis með ráðgjöf og þjónustu, til að gera þeim kleift að snúa heim til náms eða hefja háskólanám í öðrum skólum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert