Guardian: „Sparkað í liggjandi (Ís)land"

Brown réttir einhverjum öðrum en Íslendingum höndina.
Brown réttir einhverjum öðrum en Íslendingum höndina. Reuters

„Gordon Brown sló botninn í viðburðaríka viku fyrir landið með því að beita hryðjuverkalögum til að bæði leggja hald á sjóði þess í Bretlandi og hóta íslensku ríkisstjórninni lögsókn fyrir óviðunandi hegðun," segir breski blaðamaðurinn Ben H. Murray í Guardian í dag.

Murray segir að trúlegast muni hver einasti Íslendingur hugsa breska forsætisráðherranum þegjandi þörfina eftir að hafa lesið um aðgerðir Browns og orð hans í garð íslensku þjóðarinnar.

Blaðamaðurinn fer yfir gang mála síðustu vikurnar og skýrir út fyrir lesendum sínum hvernig málin horfa við Íslendingum. Hvernig íslensk yfirvöld þurfi að fara bónleiðina að Rússlandi eftir að nánustu frændþjóðir og nágrannar höfnuðu lánabeiðni og settu þjóðina þar með í þrot.

Fyrirsögnin á grein Murray er lauslega þýtt: Sparkað í liggjandi (Ís)land og í niðurlagi hennar ráðleggur hann Gordon að koma ekki á Iceland Airwaves hátíðina hafi hann haft í huga að slaka aðeins á og skemmta sér því honum yrði líklega ekki tekið með opnum örmum.

Þess má geta að gríðarlegur fjöldi lesenda hefur tjáð sig um innihald greinarinnar á vefsíðu Guardian.

Sjá greinina í heild sinni hér.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert