Mikilvægt að sofa nóg á tímum sem þessum

Margir eru vansvefta yfir þeim efnahagsvandamálum sem nú tröllríða íslensku samfélagi. Margir sjá fram á að hafa tapað ævisparnaði sínum og lífsafkomu á einu bretti og slíkt getur valdið mikilli streitu sem bitnar á nætursvefni.

Salbjörg Bjarnadóttir, geðhjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri Þjóðar gegn þunglyndi, segir ákaflega mikilvægt að fólk sofi nóg á tímum sem þessum.

Hún segir ýmis bjargráð til fyrir þá sem eiga erfitt með svefn. „Það getur verið gott að fara í heitt bað fyrir svefninn eða fá sér heitan drykk. Hvers kyns slökun getur líka virkað mjög vel og þá getur einnig reynst gott að fara í göngutúr fyrir svefninn svo maður verði líkamlega þreyttur. Þá ætti fólk að láta vera að drekka kaffi eftir kvöldmat. Áfengi og vímuefni eru síðasta sort. Það á að forðast áfengi því það veldur því oft að áhyggjurnar verða enn meiri. Fólk heldur oft að það eigi auðveldar með svefn en það er alrangt og fólk vaknar með kvíðahnút í maganum.“

Salbjörg segir að ef bjargráðin dugi ekki fólki eigi það að leita hið fyrsta til heimilislæknis. „Læknirinn hlustar og getur skrifað upp á svefntöflur til 3–5 daga svo fólk geti náð jafnvægi en ekki til lengri tíma.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert