Viðskiptasambönd tapast

mbl.is/Sverrir

„Það er mikil heift í heildsölum. Þeir verða fyrir ómældu tjóni því þeir eru álitnir vera vanskilamenn. Þeir segjast eiga peninga en fá ekki gjaldeyri. Fólk í útlöndum skilur það almennt ekki. Viðskiptasambönd sem hafa varað í áratugi eru að flosna upp,“ segir Knútur Signarsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna, en að hans sögn gekk heildsölum yfirleitt illa að fá gjaldeyri í gær.

„Það er hugsanlegt að menn hafi fengið eitthvað og þá miðað við gengisvísitölu 200, en flestir hafa ekki fengið neitt eftir því sem ég hef heyrt,“ segir Knútur. Þeir sem eitthvað hafi fengið af gjaldeyri flytji inn matvöru, lyf og þess háttar. Menn fái þau svör að ekki sé til gjaldeyrir.

Hagar, eitt stærsta innflutningsfyrirtæki landsins, gat sent fyrstu greiðslur sínar um hríð til útlanda í gær. Finnur Árnason, forstjóri Haga, sagði að standa hefði átti skil á þeim í síðustu viku. Hann sagði að valdir hefðu verið úr reikningar til að borga og greiðslurnar farið í gegnum Seðlabankann. Bankinn temprar flæði gjaldeyris og njóta greiðslur fyrir t.d. matvöru og lyf forgangs.

Finnur sagði að erlendir birgjar hefðu brugðist drengilega við, með því fororði að seinkun á greiðslum yrði ekki oft og að þær drægjust ekki lengi. Hann sagði Haga eiga langa og góða viðskiptasögu hjá flestum birgjunum. „Það verður að tryggja nægt framboð af gjaldeyri,“ sagði Finnur.

Í hnotskurn
» Seðlabankinn sendi innlánsstofnunum tilmæli um tímabundna temprun á útflæði gjaldeyris á föstudaginn var.
» Forgangsafgreiðsla er á gjaldeyri vegna vöru- og þjónustuinnflutnings. Í forgangsflokki eru t.d. matvara, lyf og olíuvörur.
» Íslensk fyrirtæki hafa átt erfitt með að standa í skilum vegna gjaldeyrisskorts.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert