Undrandi á framkomu Icelandair

Frá flugvellinum í Glasgow
Frá flugvellinum í Glasgow Reuters

Beint flug Icelandair á milli Íslands og Glasgow  hefur verið fellt niður frá 5.janúar til 25.mars 2009, samkvæmt því sem fram kemur í bréfi frá Icelandair til farþega sem áttu bókað far á tímabilinu.

Þorgeir Gunnarsson, frá Mývatni, er einn þeirra sem fengið hafa slíkt bréf en hann og þrettán aðrir úr fjölskyldu hans höfðu keypt farmiða þessa leið dagana 8 og 11. janúar. 

Þorgeir, sagði í samtali við blaðamann mbl.is í morgun að hópurinn hafi ætlað að halda upp á afmæli látinnar móður hans í borginni. Hann hafi fest miðana í september og allur hópurinn hafi verið búinn að ganga frá og borga hótelgistingu sem fáist ekki endurgreidd.

Hann segir starfsmann Icelandair hafa boðið hópnum að fá miðana endurgreidda en að eftir standi þá kostnaður vegna sjö hótelherbergja sem hvert um sig kosti 180 pund þessar þrjár nætur. Enginn hluti þess fjár fáist endurgreiddur.   

Þá segir  hann starfsmann Icelandair hafa sagt mögulegt að hópurinn geti fengið flug eftir öðrum leiðum en að það liggi ekki enn ljóst fyrir. Ljóst sé þó að við það myndi töluverður tími tapast í svo stuttri ferð. 

Þorgeir segist einnig furða sig á því að íslensk fyrirtæki skuli grípa til slíkra aðgerða gegn heimilunum í landinu í skjóli kreppunnar. „Það er verið að beina því til fólks að velja heldur íslensk flugfélög en erlend en í ljósi þessa finnst mér það heldur öfugsnúin tilmæli,” sagði hann.   

Bréfið sem Þorgeir fékk upphaflega fylgir í heild sinni hér á eftir:

„Sæll.

Varðandi bókun 2D5MC6

Því miður hefur flug til og frá Glasgow 8 og 11. janúar verið fellt niður. Ekki verður beint flug til Glasgow frá 5.janúar til 25. mars 2009.

Vinsamlega hafðu samband við okkur sem allra fyrst í s. 5050100 eða með svarpósti.

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þessi breyting veldur.
Kveðja, Netklúbbur Icelandair"  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert