Lögunum verður að breyta

Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs.
Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Lög um skil lóðarhafa á lóðum til sveitarfélaganna og endurgreiðslu gatnagerðargjalda munu setja strik í reikninginn hjá sveitarfélögum landsins nú þegar erfiðlega gengur fyrir byggingarfyrirtæki að fjármagna framkvæmdir sínar. Samkvæmt lögunum þurfa sveitarfélögin að endurgreiða lóðir að fullu ásamt verðbótum þegar þeim er skilað. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru verst sett vegna þessa og þurfa sum þeirra að draga úr framkvæmdum til að mæta þessum kostnaði en önnur koma til með að fá lán hjá Lánasjóði sveitarfélaganna til að brúa bilið.

Kópavogsbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem þurfa að fá lán hjá lánasjóðnum en kostnaður bæjarfélagsins vegna innskila á lóðum er á bilinu fjórir til fimm milljarðar. Um 30-40 prósentum þeirra lóða sem bæjarfélagið úthlutaði á síðasta ári hefur verið skilað inn en á þeim hefði mátt reisa 7-800 íbúðir. „Það þarf að endurskoða lögin,“ segir Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi.

Gunnar segir lögin barn síns tíma. „Í það minnsta þarf að setja stífari reglur um uppbyggingarhraða nú eða þá að lóðarhafar verða að taka eitthvað á sig, enda kannski ósanngjarnt að sveitarfélögin beri allan kostnaðinn.“ Lóðarhafar hafa þrjú ár til að hefja framkvæmdir og geta hvenær sem er á þeim tíma skilað lóðunum. „Sumum þessara lóða sem eru að koma inn núna var úthlutað árið 2005,“ segir Gunnar.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, tekur í sama streng og Gunnar: „Það þarf að skoða þessi lög, þá aðallega þessar miklu skyldur sveitarfélaganna og þá hvort það væri ekki eðlilegt að þau fengju að halda eftir einhverju umsýslugjaldi því þau hafa lagt mikinn kostnað í þetta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert