Róttæk endurskoðun

Björk Guðmundsdóttir á fundinum í dag
Björk Guðmundsdóttir á fundinum í dag mbl.is/hag

Björk Guðmundsdóttir stóð fyrir vinnufundi í dag sem þótti heppnast með eindæmum vel. Þar var rætt hvernig hægt er að hlúa að nýsköpun og fjölbreytileika í samfélags- og atvinnuþróun á Íslandi. Í framhaldi fundarins í dag verða haldnar málstofur og vinnufundir víða um land.

Auk Bjarkar stóðu að fundinum Háskólinn í Reykjavík og Klak, rannsóknar- og ráðgjafastofnun um sprotafyrirtæki og Fræ, stofnun H.R. um almannaheill.

„Niðurstaðan var nokkuð á þá leið að nú væri það spurning um að halda landinu í byggð. Að halda vel menntuðu fólki hér á landi og líta meira á Ísland sem eina heild,“ segir Oddný Eir Ævarsdóttir, einn skipuleggjandi fundarins. Hún segir ánægjulegt hversu margt fólk úr ólíkum greinum hafi hist í dag og rætt hugmyndir, fólks sem annars hefði ekki rætt saman. „Það var mikil samhjálp og auðmýkt í loftinu, hvernig getum við hugsað hlutina upp á nýtt og hvernig getur hátæknin hjálpað menntun, líftæknin heilsunni, menntunin heilsunni og svo framvegis,“ segir Oddný.

Eyþór Ívar Jónsson forstöðumaður Klaks, segir svona samræðuvettvang nauðsynlegan grunn fyrir alla nýsköpunarvinnu. „Nýsköpun gerist þannig að fólk með ólíkan bakgrunn kemur saman og það verður skörun,“ segir Eyþór. Hann segir að unnið verði áfram og að verkefnið fari í ákveðið ferli. Markmiðið sé að finna út hvað hægt sé að gera úr því sem við höfum.

Meðal þeirra sem funduðu voru fyrirtækjaeigendur, fræðimenn, fulltrúar innan úr kviku kerfisins, atvinnuþróunarfulltrúar og fjárfestar. Í framhaldinu mun Háskólinn í Reykjavík vinna viðskiptaáætlanir fyrir þá klasa sprotafyrirtækja sem hafa safnast saman og raðast upp og þykja vænlegar til arðsemi og aukningar á sjálfbærni og fjölbreytileika. Auk þess verða málstofur og vinnufundir haldnir víða um landmeð erlendum sérfræðingum í sjálfbærni og nýsköpun til að ræða aðra kosti en stóriðju.

Í lok fundarins var nýtt lag eftir Björk frumflutt auk þess sem heimasíðan www.nattura.info var opnuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert