Skipulagsráð vill meiri metnað í útlit spennistöðva

Fyrirmyndar spennistöð við Freyjugötu.
Fyrirmyndar spennistöð við Freyjugötu.

Skipulagsráð Reykjavíkurborgar telur mikilvægt að spennistöðvum sem Orkuveitan lætur setja upp í borginni séu hannaðar í samræmi við nærumhverfi. Segir í tilkynningu frá skipulagsráði  að fulltrúar í ráðinu vilji sjá meiri metnað í þessum efnum og hafi ástæðu til þess að ætla að Orkuveitan muni taka því vel að endurhugsa þessi mál.

Vegna breyttrar legu Mýrargötu og nýrrar lóðar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar hefur spennustöð Orkuveitunnar verið fundinn nýr staður við Nýlendugötu. Við götuna standa að mestu gömul hús sem mynda heildræna og fínlega götumynd, samkvæmt upplýsingum frá skipulagsráði.

Skipulagráð telur mikilvægt að í hverfinu standi ekki spennistöð á áberandi stað sem er úr takti við sitt nánasta umhverfi. Guðjón Samúelsson hafi á sínum teiknað spennistöðvar sem standi enn og séu sannkölluð götuprýði. Megi þar nefna spennistöð sem stendur neðst við Bókhlöðustíg og spennistöðvar við Klapparstíg og Grófartorg. Sömuleiðis myndi tvær spennistöðvar veglegt hlið að leikskólanum við Freyjugötu.

„Við viljum sjá meiri metnað í þessum efnum og höfum ástæðu til þess að ætla að Orkuveitan muni taka því vel að endurhugsa þessi mál. Sennilega hefur útlit spennustöðva ekki þótt skipta miklu máli á undanförnum árum en okkar reynsla er sú að þær eru víða litnar hornauga af íbúum í nágrenni þeirra. Öryggið skiptir auðvitað höfuðmáli en spennustöðvar geta líka verið prýði og þannig viljum við hafa það," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert