EJS segir upp 33 starfsmönnum

Tölvufyrirtækið EJS tilkynnti í morgun að 33 starfsmönnum hefði verið sagt upp störfum. Ástæðan er mun minni sala á vörum undanfarnar vikur og segir forstjórinn að þar sem engin batamerki séu fyrirsjáanleg hafi fyrirtækið orðið að grípa til aðgerða. Tæplega 170 manns vinna nú hjá fyrirtækinu.

„Þetta er því miður nauðvörn hjá okkur,“ segir Magnús Steinarr Norðdahl, forstjóri EJS. Vörusala á þessu ári hafi verið ágæt fyrstu níu mánuði ársins en á síðustu vikum hafi staðan gjörbreyst. „Það er mikið af fyrirtækjum sem hafa ákveðið að bíða með allar ákvarðanir. Það stoppar allt innkaupaferli. Það eru ekki teknar ákvarðanir um eitt né neitt lengur.“ Þótt enn seljist töluvert af búnaði hafi salan minnkað það mikið að nauðsynlegt hafi verið að segja upp fólki.

Í tilkynningu frá félaginu segir að uppsagnirnar séu liður í aðhaldsaðgerðum sem séu nauðsynlegar vegna breyttra rekstrarskilyrða og lækkandi gengis íslensku krónunnar.  Umræddir starfsmenn munu vinna út uppsagnarfrestinn sem í langflestum tilvikum er þrír mánuðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert