Skjálftahrina við Upptyppinga

Við Upptyppinga
Við Upptyppinga

Nánast stöðug skjálftahrina hefur verið við Upptyppinga, norðan Vatnajökuls, frá því klukkan 8 í morgun. Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir hræringarnar hafa færst á annað stig í dag miðað við síðustu daga, en erfitt sé að segja til um hvort gos sé í vændum.

„Undanfarnar vikur hafa þetta verið örfáir skjálftar á dag en tók mjög mikinn kipp í morgun og þeir eru orðnir býsna margir sem komu fram á skjálftamælanetinu,“ segir Páll. Skjálftarnir í dag eru á bilinu 0,1- 2,3 að stærð og segir Páll það vera dæmigerða skjálfta sem fylgi kvikuvikni og ekki von á því að þeir verði mikið stærri. „Eins og stefnir núna er atburðarásin heldur að sækja í sig veðrið og alveg þess virði að fylgjast með því, en þetta gæti alveg eins hætt á morgun, það er erfitt að segja.“

Eins og fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni hefur skjálftavirkni við Upptyppinga farið mjög vaxandi að nýju undanfarið, en í fyrra var þar einnig mikil skjálftahrina. Páll segir atburðarásina mjög merkilega út frá vísindalegu sjónarmiði, enda eru skjálftarnir nú á mun grynndri en þeir voru í fyrra.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við getum rakið leið kviku alveg neðan frá í svona langan tíma þar sem hún er að mjaka sér ofar og ofar. Þetta hefur vakið mikla athygli bæði hérlendis og erlendis meðal vísindamanna þannig að menn hafa keppst við að lána okkur tæki til að raða í kringum þetta og mæla þetta í bak og fyrir.“

Páll segir vissulega möguleika á að virknin komi upp á yfirborðið í eldgosi, en það yrði þá ekki stórt gos eins og er nú því kvikan er ekki mikil. „Við sjáum það af gervitunglamælingum að það er ekki mikið rúmmál á ferðinni þarna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert