Gylfi nýr forseti ASÍ

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson mbl.is/Golli

Gylfi Arnbjörnsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands síðan 2001, bar sigur úr býtum í forsetakjöri á ársfundi sambandsins nú rétt í þessu. Í dag er síðari dagur ársfundar ASÍ og fór kosningin fram þar, á Hilton Nordica. 

283 atkvæði voru greidd. Mótframbjóðandi Gylfa, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir varaforseti ASÍ, hlaut rúmlega 40% stuðning eða 114 atkvæði en Gylfi hlaut tæp 59%, eða 166 atkvæði.

Hjartalagið það sama hjá reyndu Alþýðusambandsfólki

Í framboðsræðu sinni í morgun sagði Gylfi Arnbjörnsson mismunandi hefðir innan ASÍ úr hvaða hópi forseti eigi að koma. Sjálfur er hann starfsmaður sambandsins, en Ingibjörg er félagskjörin, formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna, auk þess að hafa gegnt embætti varaforseta ASÍ í samtals þrettán ár. 

Reynsla sé fyrir bæði félagskjörnum forsetum og forsetum úr hópi starfsmanna. Hins vegar skipti það meira máli hvaða mann viðkomandi hefur að geyma. Enginn munur sé á félagskjörnum fulltrúum eða starfsmönnum, ef þeir ílengjast í störfum fyrir verkalýðshreyfinguna. Þá sé hjartalag þeirra hið sama.

Hann sagðist vilja efla tengslanet milli forseta ASÍ og formanna aðildarfélaga þess. Einnig kvaðst hann tilbúinn til að axla ábyrgð í því erfiða árferði sem nú stendur yfir.

Ekki bara af því að hún er kona

Í framboðsræðu sinni sagði Ingibjörg R. Guðmundsdóttir að hún hefði á ferli sínum komið að flestri starfsemi á vettvangi aðildarfélags, landssambands og Alþýðusambands Íslands. Hún sagði forsetaembættið kalla á félagslega reynslu. Það sé hans að samþætta ólík sjónarmið. Til þess þurfi forsetinn að hlusta, jafnt á einstök félög og landssamband. Henni þyki mikilvægt að forseti komi úr röðum félagskjörinna. ASÍ hafi yfir að ráða starfsmönnum, sérfræðingum til að sinna sérhæfðum störfum.

Ingibjörg er fyrsta konan sem býður sig fram til embættis forseta ASÍ. Hún er jafnframt eina konan sem gegnt hefur formennsku í landssambandi innan ASÍ. Í dag er kvennafrídagurinn og hefur vöngum verið velt yfir því hvort það geti haft áhrif á niðurstöðuna. Hún sagðist þó ekki biðla til stuðnings ársfundarfulltrúa einungis vegna þess að hún er kona, heldur vegna þess að hún er kona með mikla reynslu af störfum fyrir Alþýðusambandið, allt frá aðildarfélagi til landssambands til Alþýðusambandsins.

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert