Lítt þróaður orkumarkaður

mbl.is/þök

Þörf er á miklum og áríðandi endurbótum á orkumarkaði, nú aðeins ári eftir opnun markaðanna. Þetta er meginniðurstaða könnunar Evrópusamtaka neytenda, (BEUC), sem gerð var meðal 27 aðildarlanda BEUC á EES-svæðinu.

Á heimasíðu Neytendasamtakanna er fjallað um könnunina. Þar segir að niðurstöðurnar hafi ekki verið mjög jákvæðar. Þörf sé á miklum og áríðandi endurbótum, lítið úrval sé af orkuveitum, þá sé aðgengi upplýsinga til að auðvelda það að skipta yfir lélegt, reikningar séu flóknir og óskýrir og mismunandi verð gildi fyrir mismunandi greiðsluaðferðir. Máli skipti hvort neytendur greiði með millifærslu, debetkorti eða reiðufé.

Þá segir að erfitt reynist fyrir neytendur að ná fram rétti sínum í deilumálum við orkuveitur, t.d. vegna rangra reikninga og síðast en ekki síst séu ráðstafanir til að lækka orkuverð ekki að virka í raunveruleikanum.
 
Neytendasamtökin benda þó á að jákvæðir þættir hafi einnig komið fram í könnun BEUC. Gæði og öryggi orkuveita séu mjög góð í Evrópu, langstærsti hluti neytenda hafi aðgang að orku og truflun á orkugjöf sé mjög sjaldgæf. Þá hafi öll lönd valið skyldubirgja sem þýðir að ef orkuveita fer á hausinn þá hafa neytendur samt aðgang að orku.
 
BEUC leggur til beinar aðgerðir svo opnun orkumarkaða gagnist neytendum betur.

„Með þessari könnum vildum við fá alvöru innsýn í hvernig orkumarkaðirnir í Evrópusambandinu standa sig gagnvart neytendum. Núna hvetjum við þá sem taka ákvarðanir til að skilja neytendur ekki eftir í myrkrinu í áframhaldandi umræðum um þriðja orkupakkann og að tryggja að alvöru framförum sé náð, í staðinn fyrir að viðhalda óbreyttu ástandi,“ segir Monique Goyens, framkvæmdastjóri BEUC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert