Björgólfur segist standa við ummæli sín

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/Ásdís

Björgólfur Thor Björgólfsson segir í yfirlýsingu standa við orð sín í sjónvarpsþættinum Kompási um að breska fjármálaeftirlitinu hafi boðið flýtimeðferð við að flytja ábyrgð á Icesave bankakreikningum Landsbankans til Bretlands. Hafi bankastjórum Seðlabankans verið kunnugt um þetta boð breska fjármálaeftirlitsins og fleiri geti staðfest það.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Seðlabanki Íslands sendi síðdegis í dag frá sér athugsemdir vegna ummæla minna í sjónvarpsþætti sem birt voru í gær. Þar segir að í bréfi frá mánudegi 6. október sl. og í samtölum við forsvarsmenn Landsbankans hafi ekki verið minnst á flýtimeðferð breska fjármálaeftirlitsins, FSA. Þetta er ekki rétt. Bankastjórum Seðlabankans var kunnugt um boð breska fjármálaeftirlitsins um flýtimeðferð og geta fleiri staðfest það. Þá var einnig þeim ráðherrum í ríkisstjórn Íslands sem helst hafa unnið að úrlausn vanda íslensku fjármálafyrirtækjanna kunnugt um boð breska eftirlitsins. Allar líkur voru á því að útstreymi fjármuna úr útibúi Landsbankans í London hefði minnkað stórlega við tilkynningu í Englandi um flýtimeðferð FSA og því mun minni líkur á að fjárþörf Landsbankans margfaldaðist eins og Seðlabankinn lætur í veðri vaka í svari sínu.

Þá segir Seðlabanki Íslands að frásögn mín af rás atburða sé röng. Sú fullyrðing er án nokkurs rökstuðnings. Slíkur málfutningur dæmir sig sjálfur.
Einnig kemur á óvart að Seðlabanki Íslands beri fyrir sig búið hafi verið að ákveða í samráði við forsætisráðherra að lána Kaupþingi 500 milljónir evra þegar Landsbankinn fékk synjun Seðlabankans eftir hádegi mánudaginn 6. október. Tilkynning um lán til Kaupþings kom ekki fyrr en síðar þennan dag. Þá kemur einnig á óvart að Seðlabanki hafi um hádegi þennan mánudag reiknað með að ríkið legði 600 milljónir evra í hlutafé í Glitni þegar fáeinum klukkustundum síðar var kynnt á Alþingi frumvarp um neyðarlög sem boðaði þjóðnýtingu bankanna.

Mikilvægasta verkefni íslenska fjármálalífsins um þessar mundir er að efla traust á fjármálastofnunum. Þar ríður mest á að Seðlabanki Íslands fari fyrir öðrum. Svo er ekki þegar hann gerir ekki með neinum hætti viðunandi grein fyrir ákvörðunum sínum heldur svarar með hálfkveðnum vísum og aðdróttunum.

Að ofansögðu má sjá að ég stend við orð mín í sjónvarpsþættinum Kompás.

Björgólfur Thor Björgólfsson.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert