Opinn fundur í efnahags- og skattanefnd um IMF

„Við verðum fúslega við beiðni Ögmundar Jónassonar og því er efnt til þessa fundar,“ segir Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis. Efnt verður til opins fundar í nefndinni eftir hádegi og er umræðuefnið lánveiting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) til Íslendinga.

Ögmundur Jónasson fór fyrir helgi fram á að lánveiting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og skilmálar yrðu rædd á opnum fundi í nefndinni. Óvíst er hvort upplýst verður um skilmála sjóðsins en forsætisráðherar bar fyrir sig trúnaði við sjóðinn þegar hann var spurður um skilmálana fyrir helgi.

Gestir á fundinum verða þeir Ásmundur Stefánsson, sem nýverið fór til starfa fyrir forsætisráðherra til að hafa yfirumsjón með starfshópum sem nú starfa vegna stöðu efnahagsmála í landinu og Friðrik Már Baldursson,  prófessor við Háskólann í Reykjavík en hann hefur verið í forsvari fyrir Íslands hönd í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
 
Miðað er við að fundurinn standi í allt að tvo tíma. Hann verður sendur beint út á vef Alþingis, á sjónvarpsrás Alþingis og í Ríkissjónvarpinu.

Þetta er þriðji opni nefndarfundur Alþingis en áður hafa verið opnir fundir í heilbrigðisnefnd og landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd með ráðherrum málaflokkanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert