Sögðust myndu styðja Tryggingasjóð innlána

Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir við bresk stjórnvöld í byrjun mánaðarins að þau myndu styðja við Tryggingasjóð innlána þannig að hann gæti greitt breskum sparifjáreigendum lágmarksbætur ef Landsbankinn færi í þrot. 

Þetta kemur fram í bréfi sem viðskiptaráðuneytið sendi fjármálaráðuneyti Bretlands, 5. október síðastliðinn.

Fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, sagði í samtali við BBC að morgni 8. október  að Íslendingar hygðust ekki standa við skuldbindingar sínar gagnvart innistæðueigendum Icesave- reikninga Landsbankans í Bretlandi inneignir sínar. Hann hefur síðan sagt, að hann hafi komist að þessari niðurstöðu eftir samtal við Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, síðdegis 7. október. 

Útskrift af samtali þeirra var birt í Kastljósi Sjónvarpsins í síðustu viku en í því vísar Árni nokkrum sinnum í bréf sem viðskiptaráðuneytið sendi breska fjármálaráðuneytinu þann 5. október.

Morgunblaðið hefur nú undir höndum afrit af bréfinu sem er sent til Clive Maxwell í breska fjármálaráðuneytinu. Vísað er til viðræðna Maxwells við viðskiptaráðuneytið um helgina og síðan segir í íslenskri þýðingu: Íslensk stjórnvöld munu, ef á þarf að halda, styðja Tryggingasjóð innistæðueigenda til að afla nægra fjármuna þannig að sjóðurinn geti staðið við lágmarksbætur fari svo að Landsbanki og útibú hans í Bretlandi falli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert