Vaxtahækkun jók bankakreppuna í Noregi

Lilja Mósesdóttir hagfræðingur segir fjölmörg dæmi um að vaxtahækkanir auki á fjármálakreppur og almennt álíti hagfræðingar engin bein tengsl séu á milli stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og vaxtahækkanna. Vaxtahækkun sé hinsvegar dæmigerð krafa frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Þetta kom fram á borgarafundi í Iðnó í gærkvöld. Lilja segir að norsk stjórnvöld hafi gripið til vaxtahækkunar í bankakreppunni þar í byrjun tíunda áratugarins og nú sé almennt talið að það hafi aukið á fjármálakreppuna og valdið miklu atvinnuleysi og gjaldþrotum. Hún segir að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi einnig þrýst á vaxtahækkun þegar Suður Kórea hafi fengið þaðan lán árið 1997. Sú vaxtahækkun hafi ekki komið í veg fyrir að gengi gjaldmiðilsins félli um 49 prósent eftir að byrjað var að dæla lánsfjármagni inn. Lilja segir að Chile og Malasía hafi hinsvegar ákveðið að skammta gjaldeyri í stað þess að hækka vexti og það sé almennt álitið að kreppunar þar hafi ekki orðið jafn slæmar fyrir vikið. Hún segir að hagfræðingar mæli yfirleitt frekar með að slíkar leiðir séu farnar, ekki kannski að skammta gjaldeyri heldur að skattleggja fjármagnsútstreymi frá landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert