Yfir 20 manns sagt upp hjá 365 og laun lækkuð

Rúmlega 20 manns verður sagt upp hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365. Þá verða laun starfsmanna lækkuð frá og með 1. nóvember. Laun undir 300 þúsundum lækka ekki en laun þar yfir lækka um allt að 10%. Sem dæmi má nefna að laun upp á 400 þúsund á mánuði lækka um 7% eða um 28 þúsund á mánuði.

Hjá 365 miðlum starfa 375 manns eftir uppsagnir um mánaðamótin.

Ari Edwald, forstjóri 365, hefur sent öllum starfsmönnum sínum bréf þar sem tilkynnt er að allir starfsmenn fyrirtækisins sem eru með yfir 300 þúsund krónur í mánaðarlaun lækki í launum. Þeir sem eru með yfir hálfa milljón á mánuði lækka mest í launum eða um 10%.

„Öllum starfsmönnum verður kynnt niðurstaða varðandi sig í næstu viku en lækkunin kemur ekki til framkvæmda fyrr en mánaðarmótin nóv/des. Að sjálfsögðu eiga starfsmenn rétt á því á grundvelli kjarasamninga að hafna þátttöku í þessari lækkun og þeir starfsmenn halda þá gömlu laununum út sinn uppsagnarfrest,“ segir í bréfinu frá Ara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert