Spornað við uppsögnum

Jóhanna Sigurðarsdóttir á ársfundi Vinnumálastofnunar í dag.
Jóhanna Sigurðarsdóttir á ársfundi Vinnumálastofnunar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lagt var fram frumvarp til laga á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem miðar að því að hvetja fyrirtæki til að draga úr uppsögnum starfsfólks og nýta frekar nýtt úrræði um hlutabætur. Þetta kom fram í ávarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra á ársfundi Vinnumálastofnunar sem nú stendur yfir.

„Nú má ekki gefast upp og það er grundvallaratriði að reisa við atvinnulífið og standa vörð um heimilin í landinu,“ sagði Jóhanna.

Kjarni frumvarpsins er að sá tími sem heimilt verði að greiða atvinnuleysisbætur verði  lengdur í samræmi við lækkað starfshlutfall. Starfsmaður sem hefur áunnið sér fullan rétt til atvinnuleysisbóta en lækkar úr 100% starfshlutfalli í 50% geti þannig fengið greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í samtals sex mánuði í stað þriggja áður.

Skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðsla fyrir hlutastarf verður einnig fellt niður. Föst laun til starfsmanns fyrir 50% starfshlutfall eða meira munu ekki skerða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur eins og verið hefur.

Einnig er frumvarpinu ætlað að vernda réttindi launafólks hjá Ábyrgðasjóði launa. Verði fyrirtæki gjaldþrota munu greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa miðast við tekjur samkvæmt því starfshlutfalli sem viðkomandi gegndi áður en til samdráttar kom í fyrirtækinu á tímabilinu 1.október sl. til og með 31.janúar 2009 og að fram hafi komið krafa um gjaldþrotaskipti á búi atvinnurekanda innan tólf mánaða frá þeim tíma sem starfshlutfall starfsmanns var lækkað.

Foreldrar á vinnumarkaði munu halda áunnum rétti sínum til greiðslna samkvæmt lögum um fæðngar- og foreldraorlof og lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna þrátt fyrir atvinnumissi.  

Stefnt er að því að frumvarpið fái skjóta úrvinnslu og verði að lögum sem fyrst sagði Jóhanna.  

Fyrirtæki verða þannig hvött til þess að lækka starfshlutfall frekar en að segja upp eða lækka laun.                
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert