Davíð skaðar orðsporið

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra. mbl.is/Golli

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir í viðtali við Morgunblaðið að það hafi skaðað orðspor Íslendinga erlendis hvernig haldið hafi verið á umræðunni af hálfu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans.

„Látum nú vera hvernig kaupin gerast á eyrinni hér innanlands en þegar þetta er farið að hafa áhrif utan landsteinanna í þeirri aðstöðu sem við erum í núna þá er ábyrgðarhluti að láta málin halda áfram í þessum farvegi,“ segir Ingibjörg Sólrún. Hún segir að ýmsar aðgerðir og yfirlýsingar stjórnar Seðlabankans á síðustu dögum og vikum orki mjög tvímælis. „Í þeirri viðkvæmu stöðu sem þjóðin er í núna getur það ekki gengið til lengdar,“ segir hún.

Spurð hvort hún telji að stjórnarsamstarfið muni halda út kjörtímabilið segir Ingibjörg Sólrún: „Það væri fráleitt að spá einhverju öðru. Það væri eins og að vera í hjónabandi og spá skilnaði. Það gerir maður ekki. Við erum í þessari ríkisstjórn af fullri alvöru til að vinna þau erfiðu verk sem framundan eru. Við ætlum ekkert að flýja af hólmi.“

Ingibjörg segir brýnt að umræða um Evrópumál sé sett á dagskrá af þunga. „Ef við tækjum þá ákvörðun fljótlega að sækja um Evrópusambandsaðild myndi það strax hafa áhrif á atvinnulífið hér heima, markaðina og stöðu okkar gagnvart öðrum löndum, því þá vita allir hvert við erum að stefna og geta farið að gera áætlanir með hliðsjón af því. Væntingar gagnvart Íslandi myndu breytast og það í sjálfu sér hefði samstundis jákvæð áhrif. Síðustu vikur þegar sumir gamlir vinir hafa ekki reynst okkur vel höfum við fengið skýr skilaboð víða að um að aðildarviðræður Íslands gætu gengið hratt og að við ættum mörg stuðningsríki ef að því kæmi“

Væntanlega laus allra mála

Ingibjörg Sólrún gekkst undir aðra aðgerð á höfði í gær. Í viðtali við Morgunblaðið segir Ingibjörg Sólrún um aðgerðina: „Æxlið sem er í fjórða vökvahólfi heilans hefur takmarkað vökvaflæði um hann. Það þarf að laga með því að gera smágat til að liðka fyrir þessu flæði. Eftir þá aðgerð verð ég væntanlega laus allra mála. Það er allavega engin ástæða til að ætla annað.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert