Glerbrotum af Turninum rigndi yfir barn

Ragnar Axelssson

Mikla mildi má telja að ekki varð alvarlegt slys er glerklæðning sprakk á þriðju hæð Turnsins í Kópavogi nýlega. Glerbrotunum rigndi yfir níu ára dreng, sem staddur var á bílastæði fyrir utan verslanir á jarðhæð. Hann skarst á höfði og höndum en hlaut ekki alvarleg meiðsli. Móðir hans meiddist ekki og fleira fólk var ekki þarna er óhappið varð um miðjan dag á mánudegi um miðjan október.

„Sannarlega hefði getað farið verr því þarna hefði getað orðið dauðaslys,“ sagði móðir drengsins í samtali við Morgunblaðið í gær. „Ég var að sækja strákinn, sem hafði komið við í leikfangaversluninni eftir skóla, þegar stór glerklæðning á þriðju hæð sprakk með látum og glerbrotunum rigndi yfir okkur. Ég hélt að stórum hlut hefði verið hent í gegnum hana eins og maður sér í bíómyndum.“

„Sem betur fer voru fjölmörg sárin á höfði drengsins tiltölulega grunn og hægt var að líma tvö þau stærstu saman. Hann skarst líka á höndum og síðan þurfti að plokka úr honum glerbrot. Það sem bjargaði krakkanum var að hann var með skólatösku á bakinu en glerbrotin fóru í gegnum töskuna. Þú getur ímyndað þér hvað hefði gerst ef hann hefði ekki verið með skólatöskuna á bakinu,“ segir móðirin.

Sjálf var hún að setja hjól drengsins inn í fjölskyldubílinn, nýlegan Volvo. „Ég var búin að opna skottið á bílnum og var að mestu varin af honum en glerbrotunum rigndi yfir bílinn sem er talsvert skemmdur.“

Þorvaldur Þorláksson, framkvæmdastjóri SMI á Íslandi, sem á og rekur Turninn við Smáratorg, sagði að strax eftir óhappið hefði verið brugðist við. Haft hefði verið samband við hönnuði og fulltrúar kínverskra framleiðenda glersins hefðu komið til landsins tveimur dögum eftir óhappið. Gerðar hefðu verið ráðstafanir til að slíkt gæti ekki gerst aftur, jafnframt því sem leitað hefði verið skýringa á því sem fór úrskeiðis.

„Við teljum okkur hafa fullvissað okkur um að óhappið hafi orðið vegna þenslu á skilum á milli tveggja bygginga. Við höfum sett svartar tréplötur í staðinn fyrir glerklæðningu og aukið möguleika á þensluhreyfingu á sambærilegum stöðum í húsinu, sem eru fyrst og fremst á neðstu þremur hæðunum,“ sagði Þorvaldur. Hann sagði aðspurður að í samráði við hönnuði væri verið að kanna möguleika á að setja hlíf fyrir ofan verslanir á jarðhæð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert